EN

Vivi Vassileva

Slagverksleikari

Hin búlgarska Vivi Vassileva er fædd í Þýskalandi árið 1994 og hóf tónlistarnám sitt á fiðlu hjá föður sínum en hún kemur úr sannkallaðri tónlistarfjölskyldu. Þegar hún heyrði þjóðlagahljómsveit spila á Karadere ströndinni við Svartahafið varð hún svo innblásin af hinum litríku og framandi Balkanrytmum að hún ákvað skipta yfir á slagverk. Balkantónlistin hafði djúpstæð áhrif á Vassileva og hefur mótað hana sem þann fjölhæfa tónlistarmann sem hún er og litar enn spilamennsku hennar þrátt fyrir að hún hafi farið í gegnum hefðbundið klassískt tónlistarnám. Hún hefur vakið athygli fyrir framsækið tónlistarval á tónleikum sínum og býður áheyrendum nýjar og spennandi leiðir til þess að kynnast hljóðfærunum sem hún leikur á með frumlegri listrænni nálgun.

Vassileva á í samstarfi við marga tónlistarmenn og kemur reglulega fram með Kian Soltani, Frank Dupree, Pablo Barragán og gítarleikaranum Lucas Campara Diniz auk þess sem slagverkshópurinn hennar „Extasi Ensemble" kemur fram í virtum tónleikahúsum og hátíðum á borð við Berlínarfílharmóníuna, Elbphilharmonie í Hamburg, Schleswig-Holstein tónlistarhátíðina, Snape Maltings, Mars tónlistardaga í Ruse og Salzburgarhátíðina.

Vassileva hóf formlegt slagverksnám tíu ára gömul hjá Claudio Estay og í kjölfar þess að hún vann fyrstu verðlaun í Jugend Musiziert (Ungt tónlistarfólk) keppninni í Þýskalandi gekk hún til liðs við Þýsku ungmenna þjóðarhljómsveitina og var þá yngsti meðlimur hennar. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun síðan fyrir leik sinn. Hún hóf nám við Tónlistar- og leikhúsháskólann í München sextán ára gömul og stundar nú nám við Universität Mozarteum Salzburg hjá Martin Grubinger. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún nú þegar komið fram sem einleikari með ýmsum hljómsveitum í Evrópu.