EN

Vladimir Stoupel

Píanóleikari

Rússneski píanóleikarinn Vladimir Stoupel hefur getið sér gott orð sem einleikari, kammermúsíkant og hljómsveitarstjóri. Hann hefur bæði leikið og kennt á Íslandi ásamt eiginkonu sinni, Judith Ingólfsson fiðluleikara, en leikur nú í fyrsta sinn einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Stoupel fæddist í Rússlandi og hóf píanónám þriggja ára að aldri. Hann kom fyrst fram opinberlega tólf ára þegar hann spilaði fyrsta píanókonsert Tsjaíkovskíjs í stóra sal Tónlistarháskólans í Moskvu. Vladimir lærði píanóleik og hljómsveitarstjórnun hjá Gennadíj Rosdestvenskíj við Tónlistarháskólann í Moskvu og var nemandi rússneska píanóleikarans Lazar Berman í tæp fimm ár. Stoupel hefur komið fram sem einleikari með fjölda sinfóníuhljómsveita, meðal annars í Þýskalandi, Rússlandi og Bandaríkjunum. Hann hefur unnið með hljómsveitarstjórum á borð við Christian Thielemann, Michail Jurowski, Leopold Hager og Marek Janowski. Þá hefur hann leikið inn á fjölda hljómdiska bæði einn síns liðs og með öðrum, meðal annars verk eftir Alexander Scriabin, Henri Vieuxtemps og Shostakovitsj, auk fjölda annarra.