EN

Xavier de Maistre

Hörpuleikari

Franski hörpuleikarinn Xavier de Maistre hefur verið meðal fremstu hörpuleikara heims í meira en 20 ár. Hann hlaut á unglingsárum fyrstu verðlaun í fjölda tónlistarkeppna, meðal annars í München, Vínarborg og Jerúsalem, og þar með hófst ferill hans fyrir alvöru. Árið 1999 varð hann fyrsti franski hljóðfæraleikarinn til að hljóta ráðningu hjá Vínarfílharmóníunni, og fáeinum árum síðar varð hann fyrstur hörpuleikara til að leika einleik á áskriftartónleikum þeirrar sögufrægu hljómsveitar. Maistre hefur leikið með fjölda virtra hljómsveita, meðal annars undir stjórn Sir Simon Rattle, Riccardo Muti, Daniele Gatti og Bertrand de Billy. Hann hefur frumflutt fjölda nýrra verka, meðal annars konsertinn Trans sem Kaija Saariaho samdi fyrir hann árið 2015. Þá hefur hann leikið inn á fjölda geisladiska fyrir Sony Classical og kennir meðal annars við Tónlistarháskólann í Hamborg og Juilliard-listaháskólann í New York.

Íslenskir tónleikagestir heyrðu Xavier de Maistre ásamt sópransöngkonunni Diönu Damrau á tónleikum í Eldborg á Listahátíð í Reykjavík árið 2013, en nú leikur hann í fyrsta sinn einleikskonsert hér á landi.