EN

Föstudagsröðin

Óður til Ítalíu

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
12. mar. 2021 » 18:00 - 19:00 Norðurljós | Harpa 3.100 kr. Miðasala ekki hafin

Töfrar Ítalíu hafa löngum orðið listamönnum innblástur og eru tónskáld þar ekki undanskilin. Á þessum tæplega klukkustundar löngu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Norðurljósum hljóma þrjú verk sem öll tengjast Ítalíu með einum eða öðrum hætti.

Vivaldi var eitt frægasta tónskáld Ítalíu á fyrri hluta 18. aldar. Hann samdi meðal annars yfir 500 konserta sem margir halda nafni hans enn á lofti. Í hópi þeirra þekktari er konsert hans fyrir tvö selló, eini konsert hans fyrir slíka samsetningu og líklega saminn í Feneyjum þar sem Vivaldi starfaði við heimavistarskóla þar sem munaðarlausar stúlkur hlutu meðal annars kennslu í tónlist. Á þessum tónleikum eru það tveir meðlimir sellódeildar Sinfóníunnar, Steiney Sigurðardóttir og Bryndís Halla Gylfadóttir, sem fara með einleikshlutverkin.

Ítölsk tónlist frá 18. öld varð Ígor Stravinskíj innblástur löngu síðar, þegar hann samdi ballettinn Pulcinella út frá ítalskri hefð gamanleikhúss. Stravinskíj tók gamla tónlist en útsetti hana á sinn hátt, kryddaði til dæmis með ómstríðum hljómum og lék sér með taktskipti. Rúmum áratug síðar útsetti hann vinsælustu kaflana fyrir fiðlu og píanó svo úr varð Ítölsk svíta, sem hljómar hér í flutningi Unu Sveinbjarnardóttur og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttir.

Lokaverk tónleikanna er svo Liguria eftir Andreu Tarrodi, sem tilnefnd er til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2020. Verkið varð til eftir gönguferð um hina litríku smábæi í Cinque Terre á Lígúríuströnd Ítalíu, og hefur hlotið frábærar viðtökur víða um heim.

Tónleikar Föstudagsraðarinnar í Norðurljósum taka um klukkustund og eru fullkominn upptaktur að skemmtilegri helgi.