EN

Suðrænir tónar

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
29. apr. 2021 » 19:30 - 21:30 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Miðasala ekki hafin

Suðræn stemning ríkir á þessum tónleikum enda er lífleg tónlist frá Spáni og Rómönsku Ameríku þar í forgrunni. Albéniz var eitt fremsta tónskáld Spánar í byrjun 20. aldar og gerði föðurland sitt ódauðlegt í glæsilegum píanóverkum, ekki síst hinu stórbrotna Iberia þar sem bæjum og borgum Spánar er lýst af mikilli hugkvæmni. Hér hljómar fjórir þættir verksins í glæsilegri hljómsveitarútsetningu. Einnig hljómar vinsælasti gítarkonsert allra tíma, innblásinn af konungshöllinni í Aranjuez skammt suður af Madríd.

Síðari hluti tónleikanna er helgaður verkum frá Argentínu og Mexíkó. Slagverkshlaðinn ballettinn Estancia hefur að geyma einhverja þá hressilegustu tónlist sem fest hefur verið á blað, og sama gildir um hið fjöruga Huapango eftir mexíkóska píanistann José Moncayo, byggt á líflegum þjóðdansi með sama nafni.

Hinn spænski Rafael Aguirre er einn fremsti gítarleikari heims. Hann hefur leikið konsert Rodrigos opinberlega allt frá 16 ára aldri, hefur hlotið fyrstu verðlaun í fjölda alþjóðlegra keppna og komið fram á tónleikum í 34 þjóðlöndum. Mexíkóski hljómsveitarstjórinn Carlos Miguel Prieto er einnig á heimavelli í þessari tónlist. Hann er fyrrum aðalstjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í Mexíkóborg og árið 2019 kaus tímaritið Musical America hann stjórnanda ársins.