EN

Alberto Ginastera: Hörpukonsert

Argentínska tónskáldið Alberto Ginastera (1916–83) var eitt áhrifamesta tónskáld Rómönsku Ameríku á 20. öld. Hann fæddist í Buenos Aires og lærði þar tónlist, en stundaði síðar framhaldsnám hjá Aaron Copland í Bandaríkjunum. Ginastera sameinaði í verkum sínum þjóðlegan tón og alþjóðlegan, ekki ólíkt því sem Bartók hafði gert. Sterkur hrynur argentínskrar þjóðlagatónlistar setur svip á verk hans, en meðal þeirra kunnustu eru þróttmikil píanósónata (1952), fjórar óperur, tveir ballettar, og einleikskonsertar fyrir hörpu, fiðlu og píanó.

Hörpukonsert Ginastera er frá árinu 1965. Það var Edna Phillips, hörpuleikari Philadelphia-hljómsveitarinnar, sem pantaði verkið tæpum áratug fyrr, en tónskáldið var önnum kafið og smíði verksins dróst úr hömlu. Því fór svo að Phillips var komin á eftirlaun þegar konsertinn var loks tilbúinn, og það var spænski hörpuleikarinn Nicanor Zabaleta sem frumflutti verkið með hljómsveitinni. Konsertinn er einn sá helsti sem saminn var fyrir hörpuna á 20. öld, bráðskemmtilegt, og fjörugt verk sem sýnir hina fjölbreyttu möguleika sem harpan býr yfir sem einleikshljóðfæri.