EN

Alessandro Marcello: Óbókonsert í d-moll, 2. kafli, Adagio

Alessandro Marcello (1673-1747) var Feneyingur rétt eins og kollegi hans og samtímamaður Antonio Vivaldi. Marcello var aðalsmaður að ætt og samdi kunnáttusamlega og frumlega tónlist sjálfum sér og öðrum til yndisauka milli þess sem hann sinnti verslun og opinberum störfum á borð við dómgæslu. Í óbókonsertinum í d-moll má glöggt heyra hvernig þessi tegund einleikskonserta á rætur að rekja til söngtónlistar, og hægi kaflinn sem hér hljómar er eins og hreinræktuð óperuaría fyrir óbó. Konsertinn er mikil völundarsmíð, enda hreifst enginn annar en Jóhann Sebastían Bach svo mjög af honum að hann umritaði hann í heild sinni fyrir sembal og lifir verkið ekki síður góðu lífi í höndum píanóleikara dagsins í dag.