EN

Alice Mary Smith: Sinfónía nr. 1

Alice Mary Smith (1839–1884) var eitt helsta kventónskáld Bretlands á sinni tíð. Hún sýndi tónlistarhæfileika ung að árum og sótti einkatíma hjá William Sterndale Bennett, sem var mikilsvirt tónskáld á 19. öld, vinur Schumanns og Mendelssohns. Smith samdi fyrsta sönglag sitt árið 1857. Tíu árum síðar gekk hún í hjónaband, og sama ár var hun kjörin meðlimur í Royal Philharmonic Society, sem þótti mikill heiður. Hún samdi fjölda kórverka og kammertónlist en einnig tvær merkar sinfóníur. Sú fyrri er samin árið 1863, þegar Smith var 24 ára gömul, og er sérlega áhrifaríkt og kraftmikið verk. Tónlistin minnir nokkuð á Mendelssohn sem einmitt naut mikillar hylli á Bretlandseyjum, hefur þrátt fyrir dramatíska tóntegundina fremur heiðríkt yfirbragð. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi sinfónía hljómar á Íslandi.