EN

Anna Amalia af Braunschwieg-Wolfenbüttel: Erwin og Elmire, millispil

Um sama leyti og Maria Antonia samdi Þalestris starfaði annað tiginborið kventónskáld litlu vestar í því sem nú kallast Þýskaland: Anna Amalía hertogaynja af Braunschweig-Wolfenbüttel (1739–1807). Hún var sannarlega ættgöfug, dóttir Filippínu prinsessu af Prússlandi sem var einkar músíkölsk og fleiri úr þeim systkinahópi raunar einnig. Bróðir Filippínu var Friðrik mikli Prússakonungur og tvær systur þeirra, Vilhelmína af Bayreuth og Anna abbadís af Quedlinburg, fengust einnig við tónsmíðar. 

Anna Amalía var á sautjánda aldursári þegar hún giftist hertoganum af Saxe-Weimar-Eisenach en hann lést aðeins tveimur árum síðar, tvítugur að aldri. Þá var Anna Amalia orðin tveggja drengja móðir, og tók að sér að stýra ríkinu þar til eldri sonurinn næði lögaldri. Þegar þeim tímamótum var náð sökkti hún sér í listsköpun, samdi meðal annars sinfóníu og óratoríu og byggði upp blómlegt listalíf við hirðina í Weimar. Meðal samstarfsmanna hennar má nefna Johann Gottfried Herder, Friedrich Schiller og Johann Wolfgang von Goethe, sem einmitt orti texta óperunnar Erwin und Elmire (1776). Söguþráðurinn er sóttur í vinsælt kvæði eftir írska skáldið Oliver Goldsmith og segir frá ungum elskendum af ólíkum þjóðfélagsstigum eins og vinsælt var um þetta leyti. Einn texti Goethes úr þessari óperu hefur náð meiri útbreiðslu en allt annað sem henni tengist, aðeins fyrir þær sakir að annað tónskáld, Wolfgang Amadeus Mozart, samdi við hann sönglagið Das Veilchen.

Ópera Önnu Amalíu er ekki síst merkileg fyrir þær sakir að þótt sungið sé á þýsku sótti hún innblástur í ítalska hefð, bæði hina alvarlegri grein óperunnar (opera seria) og þá alþýðlegri (opera buffa). Í kvöld hljómar hugljúft millispil sem gæti raunar allt eins verið konsert, því að einleiksfiðla er hér mjög í forgrunni. Óperan Erwin und Elmire lá í algjörri gleymsku um aldir. Fyrsti flutningur hennar í meira en 200 ár fór fram í Bretlandi árið 1999 og síðan hefur hún hljómað nokkrum sinnum í Evrópu og Ástralíu.