EN

Anna Þorvaldsdóttir: CATAMORPHOSIS

Anna Þorvaldsdóttir (f. 1977) er í hópi fremstu samtímatónskálda heims og hefur verið staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2018. Nýjasta hljómsveitarverk Önnu er CATAMORPHOSIS, sem pantað var í sameiningu af Fílharmóníusveit Berlínar, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Fílharmóníusveitinni í New York og Sinfóníuhljómsveitinni í Birmingham. Frumflutningur verksins fór fram í Berlín í janúar 2021 fyrir tómum sal en verkið hljómaði í fyrsta sinn fyrir áheyrendur á staðnum í Eldborg í júní sama ár. CATAMORPHOSIS hlaut Ivors tónskáldaverðlaunin árið 2021 en þau eru veitt ár hvert fyrir framúrskarandi nýjar tónsmíðar.

Yrkisefni CATAMORPHOSIS er hið brothætta samband mannkyns við Móður Jörð. Ef við breytum ekki umgengni okkar, segir tónskáldið, hættum við á að útkoman verði algjör eyðilegging – katastrófa, eins og gefið er í skyn í fyrri hlutanum á hinu samsetta heiti verksins. Seinni hlutinn er dreginn af orðinu metamorphosis – umbreyting sem enn er möguleg ef brugðist er við á réttan hátt. Anna kveðst í verkinu vilja gefa í skyn ákveðna togstreitu milli andstæðra póla; vald og viðkvæmni, von og örvænting, varðveisla og eyðilegging, og segir að tónlistin sé knúin áfram af því hversu áríðandi þessi staða er. Verkið talar með öðrum orðum beint inn í okkar eigin samtíma og er áminning um þá vá sem steðjar að mannkyninu. CATAMORPHOSIS er í einum þætti sem skiptist innbyrðis í sjö hluta: Uppruni, Birting, Skautun, Von, Sálumessa, Potentia eða vald; og loks Uppgufun. Tónskáldið segir að þótt verkið sé að vissu leyti dramatískt þá beri það líka með sér von, að á milli útópíu og dystópíu, bjartsýni og svartsýni, getum við fundið jafnvægi bæði innra með okkur sjálfum og í heiminum sem við tilheyrum.