EN

Beethoven: Fiðlukonsert

Fiðlukonsert Ludwigs van Beethoven (1770–1827) er einstakur í tónlistarsögunni. Hann hefur verið nefndur drottning fiðlukonsertanna: tignarlegur, ljóðrænn, íhugull og syngjandi. Hann er eini fiðlukonsertinn á hefðbundinni efnisskrá konsertfiðlara sem varð til frá því að Mozart samdi fimm konserta sína 1775 og þar til Mendelssohn reit e-moll konsert sinn tæpum sex áratugum síðar, árið 1844. Konsert Beethovens sker sig þó ekki síst úr fyrir kröfuna sem hann gerir um tilfinningalegan þroska og næmni þess sem mundar einleikshljóðfærið. Hér gildir það eitt að koma innihaldinu til skila, djúpu, stóru og hreinu. 

Beethoven samdi fiðlukonsertinn árið 1806 fyrir Franz Clement, 26 ára gamlan fiðlara sem þótti mesta undrabarn tónlistarheimsins síðan Mozart var og hét. Beethoven hafði mikið álit á Clement, sem sést best á því að hann treysti snillingnum unga til þess að frumflytja konsertinn aðeins tveimur dögum eftir að hann fékk nóturnar í hendur, 23. desember 1806. Til að byrja með þótti konsertinn vanþakklát tónsmíð og hann var lengi að festa sig í sessi. Píanóútsetning Beethovens á einleikspartinum – gerð fyrir píanistann og tónskáldið Muzio Clementi ári eftir frumflutninginn – bætti lítt úr skák. Það var ekki fyrr en hinn 13 ára gamli Joseph Joachim lék konsertinn í Lundúnum undir stjórn Mendelssohns árið 1844 að konsertinn fór að njóta þeirrar virðingar sem honum ber. Síðan hefur hann verið ein helsta fyrirmynd flestra tónskálda sem hafa spreytt sig á fiðlukonsertforminu. 

Með Eroicu-sinfóníunni þremur árum áður tók Beethoven að feta nýja slóð í tónsmíðum sínum. Í kjölfarið fylgdi hvert meistaraverkið á fætur öðru: Appassionata-sónatan op. 57, G-dúr píanókonsertinn op. 58, Rasúmofskí-kvartettarnir op. 59 og fjórða sinfónían op. 60. Þetta eru undanfarar fiðlukonsertsins op. 61, og ætti því að vera hverjum manni ljóst að hér var Beethoven kominn á flug, sköpunargáfan aldrei meiri. Tvennt einkennir fiðlukonsertinn öðru fremur: breiðar og sveigjanlegar melódískar hendingar, sem gefa kost á ljóðrænum fiðluleik í sérflokki, og hins vegar hvernig tónskáldið beinir sjónum sínum í auknum mæli að litlum tónbrotum sem hann vinnur með á fjölbreytilegan hátt og sýnir í sífellt nýju ljósi. 

Fyrsti þáttur hefst á fimm nótu mótívi í pákum. Það lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu heyrn, er ekki annað en upptaktur að lýrísku upphafsstefi sem leikið er af óbóinu. Þetta litla mótív gegnir þó lykilhlutverki í að halda kaflanum saman, tengir saman bæði hendingar og stærri þætti hans. Stundum notar Beethoven það sem undirleik, en stundum er það í forgrunni og opnar þá yfirleitt óvæntar gáttir, því Beethoven notar það meðal annars til að komast úr einni tóntegund í aðra, oft fyrirvaralítið. 

Í öðrum kafla konsertsins heyrist glöggt hvílíka áherslu Beethoven leggur á það að einleikari og hljómsveit vinni saman, en ekki í keppni hvor við annan. Hér eru það dempaðar tutti-fiðlur sem bera uppi laglínurnar, auk þess sem klarínett og fagott fá stundum að láta ljós sitt skína. Á meðan spinnur einleikarinn hið fjölbreytilegasta skraut kringum laglínurnar, arpeggíur og skala, en tekur síðan smám saman völdin eftir því sem líður á kaflann. Þegar endirinn nálgast er þátturinn orðinn eins konar kadensa með hljómsveitarundirleik. Stutt einleiksstrófa leiðir beint inn í lokaþáttinn með sínu eftirminnilega átta takta rondó-stefi, sem er glaðværðin uppmáluð.