EN

Béla Bartók: Fiðlukonsert nr. 2 BB 117

Fiðlukonsert nr. 2 eftir Béla Bartók (1881–1945) er eitt af stórvirkjum 20. aldarinnar fyrir hljóðfærið. Bartók samdi konsertinn á árunum 1937–1938, í skugga uppgangs fasismans í Ungverjalandi og þeirra þjóðernisofsókna og ofbeldis sem honum fylgdu. Sjálfur var hann mjög andsnúinn fasismanum og því varð hann endurtekið skotspónn árása allt þar til hann tók ákvörðun um að yfirgefa ættjörðina. Skömmu eftir að Bartók hafði lokið við að semja konsertinn flúði hann ásamt eiginkonu sinni til Bandaríkjanna og átti aldrei afturkvæmt eftir það heim til Ungverjalands. Ýmsir hafa litið svo á að konsertinn hafi verið eins konar hinsta kveðja hans til ættjarðarinnar. Verkið er áhrifamikið og þrungið sterkum tilfinningum og jafnvel má skynja ákveðna sorg í upphafi þess. Hér má heyra margar vísanir í ungverskan og miðevrópskan þjóðlagaarf, en Bartók rannsakaði og skráði þjóðlög á ferðum sínum víða um Evrópu auk Ungverjalands snemma á tuttugustu öld.

Bartók vildi semja verkið í einum samhangandi þætti sem byggði á tilbrigðum við stef. Fiðluleikarinn Zoltán Székely sem frumflutti verkið var hins vegar harður á því að hann vildi fá hefðbundinn fiðlukonsert í hendurnar. Bartók samdi konsertinn því á hefðbundnu þriggja þátta formi en gat ekki stillt sig um að læða inn tilbrigðum við stef í verkið. Í öðrum þætti má heyra stef ásamt tilbrigðum og þriðji þátturinn er svo tilbrigði við efni úr fyrsta þætti.

Konsertinn er viðamikið og flókið verk. Hann er ekki saminn eftir tólftónakerfinu, þar sem allar nótur skalans eru jafnréttháar og allar nótur verða að koma fyrir. Hér má þó heyra að hann notar stef sem eru byggð á tólftónaröðinni, bæði í fyrsta kafla, þar sem tónninn a er samt sem áður grunntónninn, og þriðja kafla. Konsertinn er mjög ljóðrænn á köflum, sérstaklega miðkaflinn og þrátt fyrir ákveðinn þunga er oft dreginn upp mjög fínlegur tónvefur sem helst minnir á víravirki.

Fiðlukonsert nr. 2 eftir Béla Bartók hefur verið fluttur alloft hér á landi. Fyrst hljómaði hann í Háskólabíói í maí árið 1967, þá var Dénes Zsigmondy einleikari og stjórnandi Bohdan Wodiczko. Næst var hann fluttur árið 1969 af fiðluleikaranum Edith Peinemann undir stjórn Alfred Walter, sem stjórnaði honum svo aftur árið 1978 og þá með György Pauk á einleikshljóðfærið. Konsertinn var síðan fluttur árið 2007 í rauðri tónleikaröð undir stjórn Petri Sakari, þá var Reka Szilvay í einleikshlutverkinu. Síðast var Fiðlukonsertinn fluttur í apríl árið 2013 af Patriciu Kopachinskaju og Ilan Volkov stjórnaði hljómsveitinni. Annað þekkt verk Bartóks, Konsert fyrir hljómsveit verður flutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í maí næstkomandi.