EN

Benjamin Britten: Fjórar sjávarmyndir úr Peter Grimes

Benjamin Britten (1913–1976) var eitt mesta óperuskáld 20. aldar. Fá tónskáld á síðari hluta aldarinnar helguðu sig þeirri grein af slíkri einurð sem hann, og enginn annar óperuhöfundur 20. aldar – að Richard Strauss undanskildum – á jafnmörg verk á fastri verkaskrá óperuhúsa um allan heim. Tónlist þeirra Strauss og Brittens er ólík um margt en þó má segja að Britten hafi á sinn hátt verið arftaki eldri höfundarins, því að síðasta ópera Strauss var frumsýnd árið 1942 en Peter Grimes, fyrsta stóra ópera Brittens, var færð upp í fyrsta sinn vorið 1945. Úr henni dró Britten síðar fjóra hljómsveitarþætti sem mynda svítuna Four Sea Interludes eða Fjórar sjávarmyndir, sem hljóma í kvöld.

Í óperunni Peter Grimes kannaði Britten viðfangsefni sem voru honum hugleikin allan hans feril: stöðu einstaklings í samfélaginu og mörk sakleysis og sektar. Í ensku sjávarþorpi býr fiskimaður að nafni Peter Grimes; hann er klaufskur, ólánsamur og í ójafnvægi hvað tilfinningarnar snertir, og hann ber að einhverju leyti ábyrgð á hörmulegri atburðarás þegar aðstoðarmenn hans týna lífinu hver á eftir öðrum. Grimes er hvorki hetja né skúrkur heldur fávíst fórnarlamb aðstæðna, ekki ósvipað Wozzeck í samnefndri óperu Albans Berg. Britten gefur í skyn að harmræn framvindan sé ekki síður knúin áfram af dómhörðum múg íbúa sjávarþorpsins, sem tekur jafnvel lögin í sínar hendur – með skelfilegum afleiðingum.

Einsöngvarar og kór bera verkið vitaskuld uppi en hljómsveitin á stóran þátt í áhrifum þess, ekki síst með viðamiklum milliþáttum sem eru eins konar stemningsmyndir af sjávarþorpi, hafi og aftakaveðri. Upphafið lýsir kyrrlátri dögun í smábæ við ströndina; næsti þáttur (Sunnudagsmorgunn) er hressilegur inngangur að 2. þætti óperunnar, þegar flestir þorpsbúar flykkjast í guðshús. Þriðji þáttur er eins konar hikandi sálmalag, en í hinum fjórða lýsir Britten með áhrifamiklum hætti fárviðri sem geisar á hafi úti og reynist afdrifaríkt fyrir framvindu sögunnar.