EN

Carl Maria von Weber: Klarínettkonsert nr. 1

Carl Maria von Weber (1786–1826) var eitt helsta tónskáld þýskrar snemmrómantíkur. Hann var af tónlistarfólki kominn og faðir hans var leikhússtjóri í Hamborg; einnig voru þau Constanze, eiginkona Mozarts, bræðrabörn. Þetta bakland átti eftir að nýtast Weber vel því að hann var ekki aðeins tónskáld heldur stýrði hann óperuhúsunum í Prag og Dresden um nokkurra ára skeið. Með leikrænni nálgun sinni markaði hann djúp spor í óperusögu 19. aldar.

Weber samdi sex verk fyrir klarínett: tvo konserta, concertino, kvintett, og tvö verk fyrir klarínett og píanó. Eins og ýmis önnur tónskáld bæði fyrr og síðar (Mozart og Brahms koma strax upp í hugann) komst Weber í kynni við framúrskarandi hljóðfæraleikara sem varð kveikjan að verkunum. Það var í mars 1811 að Weber kom til München til að kynna sig og list sína. Þar hlaut hann góðar undirtektir við hirðina og konungurinn gaf honum leyfi til að halda tónleika á sínum vegum. Við hirðhljómsveitina í München starfaði Heinrich Bärmann, sem var frægur víða um lönd fyrir snilldarleik sinn á klarínett, og á innan við fimm mánuðum samdi Weber fyrir hann þrjú verk með hljómsveitarundirleik. Konsertarnir tveir eru báðir með tiltölulega hefðbundnu sniði, ólíkt concertino-verkinu þar sem tónskáldið gengur nokkuð langt í að brjóta upp konsertformið. Fyrri konsertinn er í þremur þáttum: fyrst kraftmikið og nokkuð óvenjulegt sónötuform, því næst rólegur hægur kafli og síðast fjörugt rondó.