EN

Carl Maria von Weber: Klarinettukonsert nr 1,1. kafli, Allegro

Carl Maria von Weber (1786-1826) var eitt helsta tónskáld þýskrar snemmrómantíkur og brautryðjandi óperusviðinu, enda leikhúsið honum í blóð borið: Faðir hans stýrði farandleikhúsi sem hinn ungi Weber ferðaðist með á fyrstu árum ævi sinnar. Weber sýndi mikla tónlistarhæfileika strax á unga aldri, þótt ef til vill væri hann ekki undrabarnið sem faðir hans hefði kosið sér, en faðirinn var einnig tónlistarmaður og auk þess frændi Constönzu, eiginkonu Mozarts. Klarinettukonsertinn nr. 1 í f-moll varð til þegar Weber var 24 ára gamall á tónleikaferð um Þýskaland og vakti athygli Maximilians I konungs af Bæjaralandi. Kóngur pantaði tvo konserta af tónskáldinu unga, enda starfaði framúrskarandi klarinettuleikari við hirðina, Heinrich Bärmann að nafni. Tónskáldið unga þurfti ekki að bíða lengi eftir innblæstri, og segir sagan að fyrsti kaflinn, sá sem hér fær að hljóma, hafi orðið til á einum degi. Í þessari tónlist má sannarlega greina dramatísk tilþrif sem sómt gætu sér vel á óperusviðinu og greina má vísi að því drungalega og tilfinningaþrungna andrúmslofti sem átti eftir að einkenna tónlist rómantíska tímans. Þótt verkið geri ríkar kröfur til einleikarans gat klarinettusnillingurinn Bärmann ekki stillt sig um að bæta við einleikskadensu frá eigin brjósti sem hljómar þegar líður að lokum kaflans og gefur klarinettuleikaranum tækifæri á að láta ljós sitt skína án hljómsveitarinnar.