EN

Claude Debussy: Forleikur að síðdegi skógarpúkans

Claude-Achille Debussy (1862–1918) var vegna óvenjulegra hæfileika sinna tekinn inn í tónlistarháskólann í París aðeins tíu ára gamall og stundaði hann þar nám næstu ellefu árin en meðal kennara hans var César Franck. Sumrin 1880–1882 var hann í þjónustu hinnar dularfullu velgjörðarkonu Tsjajkovskíjs, Nadezhu von Meck, og ferðaðist með henni víðsvegar um Evrópu. Starf hans fólst meðal annars í því að spila með henni fjórhent, kenna börnum hennar á píanó og koma fram á einkatónleikum hennar. Árin 1884–85 dvaldi Debussy í Róm sem handhafi Prix de Rome verðlaunanna og 1888 og 89 heimsótti hann Wagner-hátíðina í Bayreuth. Á heimssýningunni í París árið 1889 heyrði hann fyrst og hreifst af Gamelan-tónistinni frá Jövu en þau kynni áttu eftir að hafa mikil áhrif á tónsköpun hans.

Líkt og mörg tónskáld fyrr og síðar sótti Debussy innblástur í ljóð og átti hann mörg ljóðskáld að vinum. Einn þeirra var Stephane Mallarmé. Hreifst Debussy af ljóði hans L'après-midi d'un faune og ákvað að semja eftir því hljómsveitarverk í þremur þáttum, Prélude, Interlude og Paraphrase finale. Hann lauk við forleikinn árið 1894 og lét þar staðar numið.

Í ljóði sínu dregur Mallarmé upp myndir af skógarpúka í líki guðsins Pan sem heillandi skógardísir vekja af síðdegisblundinum. Sólóflautan, rödd skógarpúkans, byrjar verkið og er áberandi allt til enda, umvafin litríkum tónvef Debussys. Átti verkið eftir að marka tímamót í vestrænni tónlistarsögu og hafa djúp áhrif á næstu kynslóðir tónskálda.

Forleikur að Síðdegi skógarpúkans var frumfluttur í París 22. desember 1894. Debussy var viðstaddur æfingarnar og breytti og bætti fram á síðustu stundu. Á tónleikunum voru áheyrendur í fyrstu hikandi en í lokin var hrifningin slík, að hljómsveitin varð að endurtaka flutninginn.

Sinfóníuhljómsveit Íslands lék Forleikinn að Síðdegi skógarpúkans eftir Debussy fyrst í Þjóðleikhúsinu 22. apríl 1955 og hélt Olav Kielland þá um tónsprotann. Síðan þá hefur verkið heyrst sjö sinnum á tónleikum hljómsveitarinnar þar af í tvígang undir stjórn Jean-Pierre Jacquillat. Síðast heyrðist forleikurinn á æfingu Hljómsveitarstjóraakademíu Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Norðurljósum síðla árs 2021 þar sem Eva Ollikainen leiðbeindi ungum tónlistarnemum í hljómsveitarstjórn.