EN

Franz Schubert: Sinfónía nr. 8

„Ófullgerða sinfónían“

Þegar Franz Schubert (1797–1828) náði tuttugu og eins árs aldri hafði hann lokið við sex sinfóníur. Schubert hafði náð undraverðum þroska í tónsmíðum strax á unglingsárum eins og mörg sönglaga hans bera vitni um, til dæmis Gretchen am Spinnrade, sem hann samdi sautján ára gamall en býr yfir djúpum skilningi á mannlegu eðli sem helst væri að vænta hjá a.m.k. helmingi eldra skáldi. Líkt og fimm fyrstu sinfóníur Schuberts sýnir sú sjötta afbragðstök hans á hinu klassíska formi eins og það tíðkaðist í verkum Mozarts og Haydns, og fyrstu tveimur sinfóníum Beethovens. Þetta eru fremur hógvær og hefðbundin verk og í þeim er að finna lítið af þeim ólgandi krafti sem tók að einkenna sinfóníuformið í auknum mæli frá og með Eroicu-sinfóníu Beethovens árið 1803. 

Næstu árin eftir að Schubert lauk við þá sjöttu reyndi hann að þróa sinfóníska tækni sína enn frekar, með misgóðum árangri þó. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst honum ekki að semja fullgerðan sinfónískan þátt í meira en fjögur ár. Sinfónía í D-dúr (vorið 1818) varð ekki nema drög að tveimur ytri þáttunum, og önnur sinfónía í sömu tóntegund var á teikniborðinu tveimur árum síðar. Sinfónía í E-dúr komst nokkuð lengra á veg haustið 1821, en einnig hér hætti Schubert áður en fyrsta þættinum var lokið í partítúr. 

Í október 1822 gerði Schubert enn eina atlögu að sinfóníu, og í enn eitt skiptið lagði hann verkið frá sér hálfkarað, eftir að hafa samið tvo fyrstu þættina og fyrstu níu takta þess þriðja. Schubert lifði í sex ár enn, en tók aldrei aftur upp þráðinn. Engin einhlít skýring hefur fengist á því hvers vegna ekkert varð úr áformunum. Ýmislegt bendir til þess að einmitt í nóvember 1822 hafi Schubert sýkst af sárasótt sem átti eftir að plaga hann mjög síðustu æviárin. Önnur skýring, sem tekur frekar mið af tónlistinni sjálfri, er að Schubert hafi ekki treyst sér til að semja lokakafla sem væri verðugur þess að standa með hinum fyrri. Með fimmtu sinfóníu Beethovens voru ný viðmið sett í lokaköflum sinfónískra verka. Síðasta árið sem Schubert lifði gerði hann ráðstafanir til að hefja nám í kontrapunkti hjá Simon Sechter, einum mesta tónlistarkennara Vínarborgar um þær mundir. Áttu þær kennslustundir kannski að nýtast honum til að semja flókna lokakafla í anda Beethovens, sem hafði brugðið fyrir sig fúguskrifum, til dæmis í 3. og 9. sinfóníum sínum?

Slíkum spurningum verður vitaskuld aldrei svarað. Eftir stendur hálf sinfónía sem þó er ríkari að innihaldi en margar heilar. Ljóðrænar gáfur Schuberts eru víða í forgrunni í sinfóníunni, en þó felst áhrifamáttur hennar ekki síður í dramatískri og ólgandi framvindunni. H-moll er dökk tóntegund og fremur sjaldan notuð; hvorki Haydn, Mozart né Beethoven sömdu sinfóníur út frá þeirri tónmiðju. Raunar er aðeins ein önnur sinfónía í h-moll á fastri verkaskrá hljómsveita um allan heim og er sú ekki síður dramatísk: Pathétique-sinfónía Tsjajkovskíjs. 

Upphafið er ekki síður óvenjulegt en tóntegundin. Selló og kontrabassar leika örveikt inngangsstef sem á eftir að leika lykilhlutverk síðar í verkinu þótt það lúffi um stundarsakir fyrir órólegum fiðluundirleik og tregafullu stefi sem leikið er af óbói og klarínettu. Ekki líður á löngu þar til styrkleikinn vex og hljómsveitin öll er farin að hamra spennuþrungna hljóma á afgerandi hátt. Seinna aðalstef kaflans dvelur í sérkennilega sætum draumaheimi – G-dúr. Hér eru sellóin í aðalhlutverki og tónlistin bæði ljúf og björt; þó gefa synkópurnar í víólum og klarínettum þessum töktum meiri spennu en ella. Enda kemur að því, þar sem síst skyldi, að stefið hreinlega gufar upp. Eftir stendur heill gapandi tómur taktur, örlagaþrungin þögn sem síðan er rofin með kröftugum moll-hljómi. Draumsýnin er á enda, og napur raunveruleikinn tekinn við. 

Úrvinnslan er ekki síður spennuþrungin og raunar hádramatísk könnun á þeim möguleikum sem inngangstaktarnir átta bjóða upp á. Skerandi níundir, dýnamík sem ýmist er örveik eða ærandi sterk (a.m.k. á þess tíma mælikvarða), og herskáir rytmar í lúðrum eru meðal þess sem einkennir þennan hluta verksins, og það vekur athygli að hvorugt aðalstef framsögunnar fær neitt rými. Framvinda ítrekunarinnar er eftir því sem búast má við – seinna aðalstefið steytir á sama skerinu og áður, sem þýðir að napur hljómur lokataktanna er óumflýjanlegur. 

Hægi kaflinn er í E-dúr og hefur allt annað og bjartara yfirbragð. Hér renna heimar sálms og þjóðlags saman í eitt, í yfirlætislausum og líðandi hendingum sem virðast órafjarri ólgu fyrsta kaflans. Ekki líður á löngu þar til dramatískar fiðluhendingar í dökkum tóntegundum ná yfirhöndinni um skeið. Það sem vekur þó ekki síst furðu er hve fyrirhafnarlaust Schubert skautar milli fjarlægra tóntegunda eins og leikur sé, og tekst alltaf að ná aftur heim á upphafspunkt þótt stundum sé vissulega teflt á tæpasta vað.

Árni Heimir Ingólfsson