EN

Fréderic Chopin: Píanókonsert nr. 1, 3. kafli, Rondo-Vivace

Fréderic Chopin (1810-1849) var sannkallað undrabarn í píanóleik og tónsmíðum og var á heimaslóðum sínum í Póllandi kallaður arftaki Mozarts áður en hann hafði náð tíu ára aldri. Langflest verka hans eru samin fyrir slaghörpuna og urðu áhrif hans á píanótónsmíðar og píanótækni feikilega mikil. Chopin samdi þó aðeins tvo píanókonserta um ævina og eru báðir æskuverk, samin þegar tónskáldið var rétt um tvítugt. Þessa konserta frumflutti Chopin sjálfur í Varsjá og hafði svo með í farteskinu þegar hann hélt til Parísar 1831 að freista gæfunnar, en þrátt fyrir aðdáun margra heimavið bjó hann við afar kröpp kjör og þurfti að nurla saman fyrir farareyrinum. Í París beið hans vissulega frægð og frami, en örlögin áttu eftir að haga því þannig að hann átti aldrei afturkvæmt til heimahaga sinna. Þótt verkin tvö séu samin af svo ungum manni, aðeins þremur árum eftir dauða Beethovens, má glöggt greina mikilvæg skref í þróun formsins í átt að rómantíska píanókonsertinum. E-moll konsertinn býr yfir draumkenndri ljóðrænu sem minnir á næturljóð Chopins til jafns við virtúósískt æskufjör og hraðar og glæsilegar tónarunur sem eflaust hjálpuðu til við að leggja Parísarborg að fótum hins unga Pólverja. Lokakaflinn í konsertinum, Rondo Vivace, sækir auk þess efnivið á æskustöðvarnar, en hrynurinn minnir á krakowiak, þjóðdans í tvískiptum takti sem ættaður er frá Kraká og nærsveitum.