EN

Giacomo Puccini: Tu che di gel sei cinta úr Turandot

Texti eftir Írisi Björk Gunnarsdóttur

Turandot var síðasta ópera Giacomo Puccini (1858-1924) en hann lést frá verkinu ókláruðu. Hún var frumsýnd fyrst tveimur árum eftir dauða hans með viðbótum tónskáldsins Franco Alfano.

Prinsinn Calaf er ástfanginn af hinni ísköldu prinsessu Turandot. Hann þarf að leysa þrjár gátur til þess að ganga að eiga hana, ellegar verður hann hálshöggvinn. Þegar Calaf leysir allar gáturnar verður Turandot öskuill og gerir því prinsinn við hana samkomulag. Ef henni tekst að geta nafn hans fyrir dögun verði hann hálshöggvinn, ef ekki ganga þau í hjónaband. Turandot tekur til fanga föður Calafs og ambátt hans Liù og lætur pynta hana til að segja nafn prinsins. En hin hugrakka og hjartahlýja Liù lætur ekki bugast. Hér syngur hún til prinsessunnar ísköldu að hún muni einnig læra að elska prinsinn og finna hlýju ástarinnar. Svo stingur hún rýting í maga sér og fórnar þar með lífi sínu fyrir ástina.

Við frumsýninguna á La Scala lét stjórnandinn Arturo Toscanini staðar numið eftir aríu Liù og tilkynnti áhorfendum að hér hefði meistarinn lagt niður pennann, þar sem dauðinn hafi hér verið sterkari en listin.