EN

Giacomo Puccini: Tu che di gel sei cinta úr Turandot

Texti eftir Mörtu Kristínu Friðriksdóttur

Giacomo Puccini (1858-1924) var ítalskt tónskáld er samdi margar af þekktustu óperum sem til eru. Þar er Turandot engin undantekning, en þetta var síðasta ópera Puccinis, sem lést áður en hann náði að ljúka við hana. Óperan gerist í Kína og fjallar um prinsessuna Turandot. Hún hefur ákveðið að leggja þrjár erfiðar spurningar fyrir alla vonbiðla sína og ef þeim tekst ekki að svara þeim rétt þá verða þeir drepnir. Prinsinn Calaf verður ástfanginn af Turandot og með undraverðum hætti svarar hann öllum spurningunum rétt. Turandot er ósátt og vill ekki giftast honum. Calaf segir henni að komist hún að nafni hans fyrir morgun næsta dags sé henni frjálst að láta taka hann af lífi og sé hún þá laus allra mála. Þjónustustúlkan Liù veit hins vegar hvað hann heitir og er því tekin höndum og pyntuð, en hún lætur ekki undan og segir Turandot að ást hennar á prinsinum komi í veg fyrir að hún segi nafn hans. Í þessari aríu segir Liù að Calaf muni einn daginn bræða íshjarta Turandot og hún muni elska hann eins og Liù gerir. Að því loknu fremur hún sjálfsmorð.