EN

Gustavs Mahler: Sinfónía nr. 10

Um það eru allmörg dæmi í sögunni að tónskáld hafi ekki fullgert verk sín, ýmist vegna þess að þau kvöddu þennan heim frá síðustu tónhugmyndum sínum ófrágengnum eða af því að þau lögðu nóturnar til hliðar. Sálumessa Mozarts er líklega kunnasta dæmið um tónsmíð sem höfundur lést frá í miðjum klíðum, en hin ófullgerða sinfónía Schuberts um verk sem er hálfkarað án þess að ástæðan sé ljós. Drög hafa varðveist að fleiri óloknum verkum, til dæmis þriðju sinfóníu Elgars og tíundu sinfóníu Beethovens. Tíunda sinfónía Gustavs Mahler (1860–1911) er einnig ófullgerð. Hún á það sameiginlegt með verkum Elgars og Beethovens að síðari tíma fræðimenn hafa leitast við að finna henni fullnægjandi búning svo unnt sé að flytja hana í tónleikasölum heimsins.

Á 19. öld var Ludwig van Beethoven talinn æðstur tónskálda og hið sinfóníska form þótti hátindur tónsköpunar. Níunda sinfónía Beethovens varð mörgum tónskáldum innblástur og um leið varð talan níu eins konar viðmið um fullnægjandi afköst í þeirri grein. Ekkert meiriháttar tónskáld 19. aldar samdi fleiri en níu sinfóníur, flestir raunar færri. Anton Bruckner lést frá níundu sinfóníu sinni ófullgerðri árið 1896 og í kjölfarið tók Mahler að óttast um framtíð sína sem sinfóníutónskáld. Sú hugmynd tók sér bólfestu innra með honum að hann myndi aldrei semja nema níu sinfóníur, örlögin myndu sjá til þess að lengra kæmist hann ekki.

Mahler var staðráðinn í að leika á örlögin. Ótti hans við „bölvun hinnar Níundu“ var slíkur að hann gaf hinni eiginlegu níundu sinfóníu sinni ekki raðtölu heldur kallaði hana „Söng jarðar“ eða Das Lied von der Erde. Því næst samdi Mahler sinfóníu sem hann kallaði nr. 9, en má jafnvel líta á sem þá tíundu. Þar sem hann taldi sig vera kominn yfir erfiðasta hjallann hélt hann ótrauður áfram. Sumarið 1910 hóf hann að semja sinfóníu nr. 10 en lagði drögin til hliðar í september sama ár því að vani hans var að starfa að tónsmíðum á sumrin en útsetja verkin yfir vetrarmánuðina samhliða því sem hann sinnti starfi hljóm­ sveitarstjóra. Haustið 1910 sigldi Mahler vestur um haf og hélt áfram starfi sínu sem aðalstjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í New York; hann stýrði þar nærri 50 tónleikum næstu þrjá mánuðina. Að loknum tónleikum hinn 21. febrúar 1911 veiktist hann alvarlega og þótti strax ljóst að dauðinn væri á næsta leiti. Penisilín hefði dugað gegn streptókokkasýkingunni sem varð honum að aldurtila en lyfið uppgötvaðist ekki fyrr en 17 árum síðar. Mahler lést í maí sama ár, aðeins fimmtugur að aldri.

Við andlátið skildi Mahler eftir sig umtalsvert efni að ófullgerðri sinfóníu nr. 10, alls yfir 150 blaðsíður. Fyrsti kaflinn var svo að segja tilbúinn til flutnings en síðari þættirnir meira og minna fullgerðir í píanóraddskrá, þ.e.a.s. tónarnir voru á sínum stað en útsetningin fyrir hljómsveit var aðeins útfærð að hluta. Líf Mahlers var í töluverðu uppnámi um það leyti sem hann samdi verkið. Hann hafði nýverið komist að því að Alma, eiginkona hans, átti í ástarsambandi við arkitektinn Walter Gropius og í kjölfarið leitaði hann ráða hjá Sigmund Freud. Í handriti tíundu sinfóníunnar má lesa athugasemdir sem Mahler virðist hafa ætlað Ölmu einni og þær sýna að verkinu var ætlað að tjá ást hans. Á síðustu síðu lokakaflans skrifar hann til dæmis: „für dich leben! für dich sterben!“ (Að lifa fyrir þig! Að deyja fyrir þig!) og sömuleiðis gælunafn hennar, „Almschi!“ Þess má raunar geta að Alma og Gropius gengu í hjónaband árið 1915, að Mahler gengnum, en það entist ekki nema í tvö ár. Þau áttu saman dótturina Manon en ótímabært andlát hennar varð Alban Berg innblástur í frægan fiðlukonsert sinn tveimur áratugum síðar.

Það var ekki fyrr en rúmum áratug eftir lát Mahlers sem Alma tók að huga að því að gera síðustu sinfóníu hans hæfa til flutnings. Fyrsti og þriðji þáttur voru látnir nægja fyrst um sinn og hljómuðu þeir í útgáfu tónskáldsins Ernst Krenek (sem var um skamma hríð kvæntur dóttur Mahler­hjónanna) á tónleikum árið 1924. Um 1940 tók bandarískur aðdáandi Mahlers að róa að því öllum árum að koma sinfóníunni í endanlegan búning. Arnold Schönberg og Benjamin Britten voru meðal þeirra sem hann leitaði til en þeir vísuðu verkefninu báðir frá sér.

Enski tónlistarfræðingurinn Deryck Cooke lét aftur á móti tilleiðast. Hann vann að sinfóníunni að mestu á árunum 1959 og 1960 en hélt áfram að nostra við útgáfuna næstu áratugi, fyrst með aðstoð stjórnandans Berthold Goldschmidts en
síðar með hjálp bræðranna Colin og David Matthews. Þessi útgáfa kom í fyrsta sinn út á nótum árið 1976, skömmu áður en Cooke lést. Cooke lagði ávallt á það áherslu að hann hefði ekki „fullgert“ verk Mahlers, enda hefði tónskáldið sjálft lagt grunn að framvindunni frá fyrsta takti til hins síðasta, heldur aðeins gert tónleikaútgáfu (a performing version of the draft) af drögum Mahlers. Útgáfa Cookes vakti þegar mikla athygli og þótt Alma Mahler lýsti sig andsnúna henni í fyrstu tók hún hana að lokum í sátt. Í þessum búningi hefur tíunda sinfónían hljómað víða um heim undanfarna áratugi. Meðal þeirra stjórnenda sem hafa flutt hana opinberlega eru Simon Rattle, Riccardo Chailly, Daniel Harding og Vladimir Ashkenazy.

Sinfónían er í fimm þáttum og uppbyggingin er óvenjuleg sé litið til hins hefðbundna forms 19. aldar. Verkið myndar eins konar spegilform. Tveir óvenjulangir hægir þættir ramma inn tvo hraða kafla (scherzo), en kjarninn er eins konar millispil. Mahler gaf því heitið Purgatorio (Hreinsunareldur) en rök hafa verið færð fyrir því að ekki sé um að ræða tilvísun í Dante heldur ljóð með sama nafni eftir pólska skáldið Siegfried Lipiner, sem var náinn vinur tónskáldsins. Þetta er stysti þátturinn í nokkurri sinfóníu Mahlers, aðeins um fjórar mínútur að lengd.

Segja má að tíunda sinfónían hefjist þar sem þeirri níundu lauk, með hægum kafla sem er fullur af tjáningu. Upphafskaflinn hefst á einu lengsta víólusólói sem fyrirfinnst í sinfóníu, sextán töktum sem Mahler biður um að séu leiknir „án tjáningar“ (ohne Ausdruck). Að stefinu loknu taka við tilfinningaþrungnir strengjahljómar. Hápunkturinn er sannarlega átakanlegur og með því ómstríðasta sem Mahler samdi nokkru sinni.

Næst koma þrír hraðir kaflar, tveir lengri og einn stuttur. „Djöfullinn dansar við mig“ páraði Mahler á drögin að fjórða kafla (Scherzo II) sem er eins konar vals sem þó hefur yfirbragð örvæntingar. Lokaþætti sinfóníunnar hefur verið lýst sem einhverri óræðustu og örvæntingarfyllstu tónlist sem Mahler festi á blað. Hann hefst með ógnardjúpum nið; trommuslætti og túbu. Í nóturnar skrifaði hann „Aðeins þú veist hvað þetta merkir“ – væntanlega einhvers konar skilaboð til Ölmu. Sjálf gat hún þess að Mahler hefði sótt innblástur í atburð sem þau sáu út um gluggann á hótelherbergi sínu í New York: fjölmenna útför slökkviliðsmanns. Eftir annan harmþrunginn hápunkt deyr tónlistin út með blíðum strengjatónum sem minna á upphafið, eins og hringnum hafi verið lokað.