EN

Hildur Guðnadóttir: Undir tekur yfir

Hildur Guðnadóttir hefur hlotið mikið lof fyrir tónlist sína, ekki síst tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti eins og The Handmaid's Tale. Hildur hefur samið tónlist fyrir leikrit, dansverk, kvikmyndir, verk fyrir kammersveitir, alls kyns hljóðfærasamsetningar, raddir og rafhljóð og samið tónlist að beiðni Konunglega sænska ballettsins, Tate Modern, Opera North og Sinfóníuhljómsveitar Íslands svo að eitthvað sé nefnt. 

Verk hennar, Undir tekur yfir, er hugleiðing um undirmeðvitundina, eins konar æfing í áreynslulausri hlustunareinbeitingu þar sem lýsing í salnum leikur einnig stórt hlutverk. Verkið var tilnefnt til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

Frá Hildi til hlustandans:
„Sumarið 2012 varð ég fyrir þeirri lífsreynslu að missa meðvitund. Ég missti reyndar ekki neitt, því að það sem gerðist í rauninni var að það urðu eins konar meðvitundarskipti og undirmeðvitundin tók yfirvöldin af þeirri vitund sem yfirleitt ræður ferðinni. Stuttu áður en þetta atvik átti sér stað hafði Ilan Volkov samband við mig og bað mig að skrifa tónverk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Í júlí 2012 dreymdi mig verkið, í formi teikningar. Þar sem mér fannst að undirmeðvitundin ætti við mig erindi, þá teiknaði ég það sem mig dreymdi og byggði tónverkið á teikningunni. Ég mæli ekkert sérstaklega með því að missa meðvitund, en það getur verið mjög áhrifaríkt að færa meðvitundina - að einbeita sér og skynfærunum á annan hátt en maður er vanur. 

Undir tekur yfir krefst þess af hljóðfæraleikurum hljómsveitarinnar að þeir hlusti og spili á annan hátt en þeir eru vanir. Mig langar að biðja þig, hlustandi góður, að prófa að gera slíkt hið sama. Mig langar að biðja þig að taka örlítinn tíma í byrjun tónleikanna til að undirbúa hlustunina. Þegar þú byrjar að heyra hljóð, langar mig að biðja þig að taka eftir því hvernig þú hlustar, og færa svo skynjunina. Hvernig þú gerir það er undir þér komið, en þú gætir t.d. fært hlustunina frá eyrum niður í axlir, eða þú getur fært hljóðið sem þér finnst koma að framan, fyrir ofan þig. Hvernig sem þú ákveður að hlusta, reyndu að gera það einbeitt en á sama tíma eins áreynslu- og hugsanalaust og þú getur. 

Takk fyrir að hlusta
Hildur“