EN

Ígor Stravinskíj: Eldfuglinn, svíta

Ígor Stravinskíj (1882–1971) var ekki nema 27 ára gamall árið 1909, þegar rússneski athafnamaðurinn Sergei Diaghilev pantaði af honum tónlist við Eldfuglinn, nýjan ballett handa dansflokkinum Ballets Russes. Stravinskíj var raunar ekki með öllu óþekkt stærð. Hjómsveitarverk hans Flugeldar (Feu d'artifice) hafði verið flutt skömmu áður, auk þess sem hann hafði útsett nokkur píanólög eftir Chopin fyrir ballett Diaghilevs, Les sylphides. En Diaghilev tefldi á tvær hættur með því að setja traust sitt á svo ungt og að mestu óreynt tónskáld, enda leitaði hann ekki til Stravinskíjs fyrr en eftir að þrjú önnur tónskáld – Ljadoff, Tsjérepnín og Glasúnoff – höfðu neitað að taka það að sér. Stravinskíj sá strax að hér var um einstakt tækifæri að ræða, lagði til hliðar hálfsamda óperu og vatt sér umbúðalaust að nýja verkinu. Eldfuglinn var frumfluttur í Parísaróperunni í júní 1910 við feykigóðar undirtektir, sem urðu til þess að þeir Diaghilev héldu samstarfinu áfram með Petrúsku (1911) og Vorblóti (1913).  

Söguþráð ballettsins spann dansahöfundurinn Michel Fokine úr rússneskum þjóðsögum. Hér segir af unga prinsinum Ívan, sem reynir að handsama eldfuglinn göldrótta en hefur ekki erindi sem erfiði. Ívan hrífst af prinsessu einni sem er í haldi Kastseis hins illa, en liðsmenn hans handtaka prinsinn og allt útlit er fyrir að hann mæti sömu örlögum og aðrir vonbiðlar prinsessunnar: þeim hefur öllum verið breytt í stein. Á ögurstundu minnist Ívan þess að hann hefur fjöður eldfuglsins í fórum sínum. Þegar hann veifar fjöðrinni birtist eldfuglinn og með töfrum sínum magnar hann upp ofsafenginn vítisdans sem Kastsei og liðsmenn hans dansa án þess að fá við nokkuð ráðið. Því næst svæfir eldfuglinn Kastsei með angurværri vögguvísu og tjáir prinsinum að eina leiðin til þess að eyða mætti Kastseis sé að brjóta fjöregg hans. Prinsinn kastar fjöregginu til jarðar og náttmyrkrið sem hafði umlukið ríki Kastseis víkur fyrir nýjum degi. Steinrunnir vonbiðlarnir vakna aftur til lífsins og verkinu lýkur á mikilfenglegum gleðidansi.  

Margir hafa orðið til að benda á þversögnina sem felst í því að eftir því sem Stravinskíj, sem var heimsborgari fram í fingurgóma, naut meiri vinsælda á heimsvísu, þeim mun rússneskari hafi tónlist hans orðið. Eldfuglinn stendur við upphaf þeirrar þróunar og tónmál verksins er að mörgu leyti „alþjóðlegra“, jafnvel þótt Stravinskíj noti rússnesk þjóðlög bæði í dansi prinsessanna og í vöggulagi eldfuglsins. Hið síðarnefnda er leikið á fagott við lágróma strengjaundirleik, og er dæmigert fyrir tónlistina sem táknar eldfuglinn sjálfan í verkinu, smástíg og framandi, gjörólík tónlistinni sem hljómar þegar Ívan prins og prinsessurnar eru í forgrunni. Sem heild er tónlist Stravinskíjs mun hefðbundnari en í verkunum sem á eftir fylgdu. Margt minnir á kennara hans, Rimskíj-Korsakoff – til dæmis Sheherazade –, Glinka og jafnvel Skrjabín. Þó bregður einnig fyrir köflum þar sem heyrist glitta í Vorblótið, ekki síst í kraftmiklum rytmaleiknum í vítisdansinum fræga.