Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir: Balaena
Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir (f. 1990) hefur undanfarin ár sett svip sinn á íslenskt tónlistarlíf og átt gott samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Nordic Affect, Kór Breiðholtskirkju og fleiri. Verk hennar hafa reglulega verið flutt á Myrkum músíkdögum og hlotið lofsamlega dóma. Fyrir utan að skrifa stærri hljómsveitarverk vinnur Ingibjörg jöfnum höndum með kórum, dönsurum, leik- og kammerhópum og kvikmyndagerðarfólki. Á hennar vegum hafa komið út tvær plötur í fullri lengd. Annars vegar er það platan Hulduhljóð með listahópnum Hlökk frá 2019. Sú plata fékk Kraumsverðlaunin ásamt tilnefningu til plötu ársins í opnum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum. Hins vegar er það platan Konan í speglinum (2023) sem var samstarfsverkefni hennar og Ingibjargar Fríðu Helgadóttur og byggðist á ljóðum Ingibjargar Haraldsdóttur. Ingibjörg hefur verið útnefnd sem Bjartasta vonin í flokki Sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum og árið 2023 var verk hennar Fasaskipti tilnefnt sem tónverk ársins.
Tónlistargagnrýnandinn Simon Cummings segir um Balaena, sem flutt var af Kammersveit Reykjavíkur á hátíðinni árið 2023, „[verkið] var jafnt seiðmagnað, mikilfenglegt og yndisfagurt og sýndi ljóslega að Ingibjörg er tónskáld sem á aukna athygli skilið“. Balaena er um 10 mínútur að lengd og er samið út frá söng hnúfubaka og umhverfi þeirra, hafinu. Ingibjörg segir sjálf um verkið: „Ég fékk áhuga á tónverkum þar sem rafhljóð smíðuð úr hvalasöng blönduðust við akústískan hljóðfæraleik en vildi reyna að láta hljóðfærin sjálf líkja eftir þessum söng. Ég fékk mikið safn vettvangsupptaka frá sjávarlíffræðingnum Eddu Elísabetu Magnúsdóttur með ýmsum hvalategundum og kann henni miklar þakkir fyrir. Ég ákvað að einskorða mig við söng hnúfubaka og þá varð til verkið Balaena (eða hvalur á latínu)“. Verkið var umritað fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit og þeramín fyrir flutning kvöldsins.