EN

Jean-Philippe Rameau: Les Indes galantes, valdir þættir

Jean­Philippe Rameau (1683–1764) var eitt helsta óperutónskáld Frakka á 18. öld. Hann auðgaði formið með nýstárlegum hljómaferlum og hugmynda­ ríkri notkun hljóðfæranna í hljómsveitinni. Óperur hans voru bæði vinsælar og umdeildar á sínum tíma en duttu svo úr tísku. Þegar farið var að flytja þær aftur á síðustu öld vakti það athygli hve tónlistin er frumleg og fersk.

Rameau kom seint að óperunni; framan af ævi starfaði hann sem organisti og skóp sér auk þess orðstír sem tónlistarfræðingur með ritinu Traité de l’Harmonie (Ritgerð um hljómfræði) sem lengi var undirstöðurit í tónfræði. Hann stóð á fimmtugu þegar hann samdi sína fyrstu óperu, Hippolyte et Aricie – harmleik í tónum, árið 1733. Les Indes galantes fylgdi svo fast á eftir og var frumsýnd 1735. Verkið er opéra-ballet, eins konar röð sjálfstæðra þátta með dansatriðum og sögusviðið er exótískt: þættirnir ger­ast í Tyrklandi, á hátíð sólarinnar hjá Inkum í Perú, í kvenna­ búri í Persíu og meðal indjána Norður-­Ameríku. Staðarvalið ber vott um það aðdráttarafl sem framandi lönd hafa löngum haft fyrir Evrópumenn og þær staðalímyndir sem þeim er gjarnt að yfirfæra á íbúa þeirra. Verkið hefst á inngangi sem gerist í höll æskugyðjunnar Hebu. Hún hvetur unga menn frá fjórum Evrópulöndum, Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Póllandi, til þess að gefast yndi ástarinnar á vald. En þeir ganga í staðinn stríðs­ gyðjunni Bellonu á hönd og halda burt til að vinna sér orðstír í bardögum. Þegar Heba skorar á ástarguðinn sjálfan að beita sér í málinu beinir hann sjónum frá Evrópu og að fjarlægari ströndum — og þar með getur leikurinn hafist fyrir alvöru því tilgangur verksins er nefnilega að lofsyngja mátt ástarinnar um veröld víða.

Les Indes galantes var ekki vel tekið í upphafi, sönghlutverkin þóttu rýr og líbrettóið afleitt, svo Rameau hófst strax handa við að endurbæta verkið. Það naut vaxandi hylli í sinni nýju gerð og var fært upp hvað eftir annað en féll svo í gleymsku. Óperan heyrðist ekki aftur fyrr en líða tók á 20. öld en þykir nú eitt besta verk tónskáldsins. Hljóðfæratónlistin í henni er afbragð, fjölbreytt og glæsilega smíðuð, og það eru kaflar úr henni sem hljóma hér í kvöld.