EN

Jean Sibelius: Fiðlukonsert

Fiðlukonsertinn op. 47 er eini einleikskonsert Jeans Sibeliusar (1865–1957) og meðal þeirra tónsmíða hans sem nýtur mestra vinsælda. Sibelius minntist fyrst á konsertinn í bréfi til Aino eiginkonu sinnar í september 1902. Þar segir hann frá „stórkostlegri hugmynd“ sem hann hafi fengið að upphafstöktunum, sem eru vissulega óvenjulegir og heillandi. En Sibelius gekk illa að koma konsertinum í endanlegt form. Hann átti það til að drekka ótæpilega og liggur nærri að hann hafi haft fasta búsetu á knæpum Helsinkiborgar einmitt um það leyti sem hann var með konsertinn í smíðum. Frumflutningurinn í febrúar 1904 var hreinasta hörmung og gagnrýnendur tættu verkið í sig. Það var ekki fyrr en eftir 18 mánaða yfirlegu og allnokkrar styttingar að Sibelius leyfði að verkið hljómaði á ný, með ólíkt betri árangri.

Kannski er helsta ástæðan fyrir vinsældum konsertsins sú hversu góðu jafnvægi Sibelius nær milli kraftmikillar spilamennsku og kyrrlátra augnablika. Upphafskaflinn hefst með glitrandi tónavef sem er kyrrstæður í hljómrænum skilningi en þó fullur af orku og hreyfingu. Fiðluleikarinn vefur langar hendingar og leikurinn verður ástríðufyllri eftir því sem á líður. Sibelius tengir hina ólíku hluta þáttarins svo snilldarvel saman að það vill gleymast hversu örðugt honum reyndist að finna tónlistinni endanlegan búning.

Hægi kaflinn er hvíld eftir átök fyrsta þáttar. Klarínett og óbó hefja leikinn með fíngerðum dúettum, og lágstemmdri einleiksröddinni vex smám saman fiskur um hrygg. Lokaþátturinn er þungstígur en fjörmikill dans, eða eins og enski gagnrýnandinn Donald Francis Tovey komst að orði: „pólónesa fyrir ísbirni“. Einleikarinn fer hér á kostum, með flaututónum, tví- og þrígripum og ógnarhröðum tónstigum sem stundum virðast á mörkum hins gerlega.