EN

Jean Sibelius: Lemminkäinen-svíta

Jean Sibelius (1865–1957) sótti margsinnis innblástur í finnska kvæðabálkinn Kalevala, enda hreifst hann af kvæðunum allt frá því á unglingsaldri. Raunar var hrifning hans slík að árið 1891, þegar hann var um 25 ára gamall og í þann mund að feta sín fyrstu skref sem tónskáld, ferðaðist hann til Porvoo til þess eins að hlýða á Larin Paraske, landskunna kvæðakonu sem þá var um sextugt og kunni ógrynni þjóðkvæða og þjóðlaga. Um sama leyti vann Sibelius að viðamikilli óratóríu úr Kalevala-efniviðnum, Kullervo, sem var frumflutt við miklar vinsældir árið 1892. Næst hafði hann í huga að semja stórbrotna óperu, einnig byggða á Kalevala, en eftir að hafa heimsótt Wagner-hátíðina í Bayreuth árið 1893 lagði hann óperudrauminn á hilluna. Nokkuð af þeirri tónlist sem hann hafði þegar fest á blað fann sér þó farveg í hljómsveitarverkinu sem hann samdi í staðinn: Lemminkäinen-svítunni.

Ein af hetjum Kalevala-bálksins er hinn ungi Lemminkäinen, sem er í forgrunni í þremur af fjórum þáttum verksins. Léttlyndur og andvaralaus lendir hann stöðugt í vandræðum en losnar úr þeim aftur vegna galdrakunnáttu sinnar og móður sinnar. Lemminkäinen-svítuna mynda fjögur tónaljóð sem hvert segir sína sögu eða dregur upp mynd úr kvæðabálkinum. Að sumu leyti má líta á verkið sem sinfóníu í fjórum þáttum, en þó með þeim fyrirvara að þættina má flytja staka og þeir mynda ekki línulega framvindu. Sibelius dró fyrri tvo þættina til baka eftir frumflutninginn, sem fór fram í Helsinki árið 1896, og komu þeir ekki aftur fyrir almenningssjónir fyrr en verkið var gefið út á nótum tæpum 40 árum síðar.

Fyrsti þáttur verksins segir frá því þegar Lemminkäinen heldur út í eyju nokkra þar sem hann vekur aðdáun fjölda kvenna en neyðist til að flýja þegar karlmennirnir gera aðsúg að honum. Annar þáttur, Svanurinn frá Tuonela, er án efa frægasti þáttur verksins, ekki síst fyrir dáfagurt englahornssóló. Hér lýsir Sibelius svaninum sem syndir kringum Tuonela, eyju hinna dauðu, sem er umkringd svörtu og straumþungu vatni. Í þriðja þætti er Lemminkäinen sjálfur staddur í Tuonela. Þar hyggst hann skjóta svan til þess að geta gert tilkall til dóttur Norðlandsins, en blindur maður drepur hann og líki hans er fleygt í ána. Í kraftmiklum fjórða þættinum segir frá því þegar Lemminkäinen ferðast heim á leið að loknum ævintýrum sínum.

Hvað einkenni tónlistarinnar snertir vísar margt í Lemminkäinen-svítunni veginn til sinfóníanna sjö sem Sibelius samdi síðar á ferlinum; smæstu tónfrymi verða þegar fram líður að breiðum stefjum sem mynda tignarlega hápunkta. Þessi spennuþrungna og litríka tónlist markaði tímamót á ferli Sibeliusar og stendur sannarlega enn fyrir sínu.