EN

Jean Sibelius: Rakastava

 

Eins og ótal tónskáld á síðari hluta 19. aldarinnar heillaðist Jean Sibelius (1865–1957) af menningararfi þjóðar sinnar, þjóðkvæðum og –lögum af ýmsum toga. Kvæðabálkurinn Kalevala var honum hugstæður alla tíð og þangað sótti hann innblástur í ótal tónverk stór og smá: risavaxna óratóríuna Kullervo, smáþætti fyrir hljómsveit á borð við Lemminkainen-svítuna o.s.frv. Einkenni þjóðararfsins eru órjúfanlegur hluti af tónmáli Sibeliusar, og þau setja einnig svip á þau verka hans sem ekki tengjast beint finnskum þjóðkvæðum eða –sögnum. 

Þríþáttungurinn Rakastava, eða Elskhuginn, á sér fremur óvenjulega sögu. Árið 1894 samdi Sibelius kórverk fyrir tónsmíðakeppni sem Háskólakórinn í Helsinki stóð fyrir. Textana valdi hann sjálfur úr þjóðkvæðasafninu Kanteletar, sem hinn mikilvirki safnari Elias Lönnrot gaf út 1840 og er eins konar systurbálkur Kalevala. Í erindunum sem Sibelius valdi í kórverk sitt leitar ungur maður að ástvinu sinni, fetar slóð hennar gegnum skóga og yfir fjöll, og að lokum sameinast elskendurnir í fögrum ástarsöng þar sem tenór og mezzósópran fara með einsöngsstrófur. Kórverkið varð flóknara en Sibelius hafði upphaflega gert ráð fyrir, og ekki féll það betur í kramið hjá dómnefndinni en svo að því voru veitt 2. verðlaun. Síðar útsetti Sibelius verkið fyrir karlakór, og árið 1911 vann hann tónefnið að nokkru leyti upp á nýtt í verki fyrir strengjasveit og slagverk sem ber sama nafn og kórverkið, og hljómar á tónleikunum í kvöld. 

Strengjaverkið var fullgert í janúarbyrjun 1912 en erfiðlega gekk að finna því útgefanda; forleggjarinn Lienau í Berlín sagði verk fyrir strengjasveit löngu komin úr tísku. Nú til dags eru flestir á því að verkið sé einkar vel heppnað, ljóðrænt með tregafullum undirtóni sem hæfir yrkisefninu vel. Sibelius notar stefin úr kórverkinu en vinnur úr þeim á ýmsa lund, svo að eiginleikar strengjahljóðfæranna njóta sín til fulls. Fyrsti þátturinn er einkar ljóðrænn, með ofurveiku strengjaspili og nokkrum áhrifamiklum hápunktum; miðkaflinn hefur léttara yfirbragð og er eins konar scherzo með hraðri tríólu-hreyfingu. Í lokaþættinum taka einleiksfiðla og selló hlutverk elskhuganna úr kórsvítunni. Verkinu lýkur með áhrifamikilli kveðjustund þar sem fiðla og selló skiptast á tjáningarríkum hendingum og falla loks í faðma í lokatöktunum.