EN

Johannes Brahms: Konsert fyrir fiðlu og selló

Johannes Brahms og ungverski fiðluleikarinn og tónskáldið Joseph Joachim (1831–1907) kynntust í Hannover 1853 og bundust strax nánum vináttuböndum. Brahms skrifaði nær öll fiðluverk sín fyrir Joachim og sótti til hans tæknilegar ráðleggingar. Léku þeir saman á fjölmörgum tónleikum og bjuggu um tíma undir sama þaki. Joachim giftist alt-söngkonunni Amalie Schneeweiss árið 1863 og eignuðust þau sex börn. Þegar hjónin skildu sautján árum síðar tók Brahms málstað Amalie en ástæða skilnaðarins var ákvörðun Amalie að taka aftur upp þráðinn sem söngkona. Olli afstaða Brahms vinslitum milli hans og Joachims. Töluðust þeir ekki við í nokkur ár en Joachim hélt þó áfram að leika verk Brahms.

Brahms og sellóleikaranum Robert Hausmann varð vel til vina eftir meistaralegan flutning hins síðarnefnda á sellósónötu Brahms op. 38 í viðurvist hans árið 1872. Tileinkaði Brahms Hausmann aðra sellósónötuna op. 99 og frumfluttu þeir hana haustið 1886. Í framhaldinu bað Hausmann tónskáldið um að semja fyrir sig sellókonsert. En sættir við Joachim voru Brahms ofarlega í huga og ákvað hann að rétta fram sáttarhönd með því að bæta fiðlurödd við verkið. Skipulagði Brahms fyrstu æfingar á konsertinum heima hjá sameiginlegri vinkonu þeirra Clöru Schumann og 21. september 1887 ritar hún í dagbók sína eftirfarandi: „Þessi konsert er að vissu leyti sáttaverk - Joachim og Brahms talast nú við í fyrsta sinn í mörg ár.“

Í tvíkonsertinum gefur að heyra tilvísanir í vináttu þeirra Brahms og Joachims. Þannig hljómar óbein ívitnun í a-moll fiðlukonsert Giovannis Battista Viotti sem var eitt af eftirlætisverkum Joachims. Þá heyrist tónaröðin f-a-e sem vísar í lífsmottó Josephs Joachim „frei aber einsam“ - „frjáls en einmana“ enda notaði hann hendinguna oft í eigin verkum. Þá er tíður einradda leikur einleikshljóðfæranna og tilvitnun í frægasta verk Joachims, Konsert í ungverskum stíl, dæmi um einlægan sáttavilja Johannesar Brahms.