EN

John Adams: Lollapalooza

John Adams (f. 1947) er eitt helsta núlifandi tónskáld Banda- ríkjanna. Hann fæddist í Massachusetts og lærði við Harvard- -háskóla en hefur um árabil verið búsettur í Los Angeles. Adams var á fyrri hluta ferils síns í fararbroddi þeirra tónskálda sem kenna sig við naumhyggju, en undanfarna áratugi hefur hann fetað braut sem kalla má „síð-naumhyggju“ (post-minimalism) enda eru verk hans fjölbreytt hvað stíl og inntak varðar. Adams hefur samið ótal hljómsveitarverk og óperur, meðal annars Nixon in China (1987), The Death of Klinghoffer (1991) og Doctor Atomic (2005) sem allar sækja yrkisefni sín í samtímann og hafa jafnvel vakið harðar deilur.

Skemmtistykkið Lollapalooza veldur þó varla neinni misklíð enda er tilgangur þess einvörðungu að gleðja og kæta. Adams samdi verkið árið 1995 sem fertugsafmælisgjöf handa vini sínum, breska hljómsveitarstjóranum Simon Rattle. Um uppruna bandaríska orðsins lollapalooza er allt á huldu en hugsanlega var það fyrst notað um rothögg í hnefaleikum. Í öllu falli merkir það eitthvað sem er risavaxið, í yfirstærð, jafnvel einnig ófágað eða gróft. Adams hreifst ekki síst af hryn orðsins þar sem sterk áhersla kemur á næstsíðasta atkvæði: da-da-da-DAA-da. Eins konar leiðarstef í þessu stutta og glaðværa verki er fimm tóna hending í básúnum og túbum sem hefur einmitt þennan hryn. Annars er verkið fyrst og fremst „dansandi ferlíki“ eins og Adams kemst sjálfur að orði. Þess má geta að Adams er sjálfur væntanlegur til Íslands og mun stjórna eigin verkum á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands hinn 5. maí næstkomandi.