EN

Kvikmyndatónlist John Williams

John Towner Williams (1932) er eitt þekktasta og afkastamesta kvikmyndatónskáld Bandaríkjanna. Hann hefur samið tónlist við fleiri þekktar kvikmyndir en nokkur annar – of langt mál er að telja þær allar upp en þó má nefna myndir eins og Ókindina (Jaws), Ofurhetjuna (Superman), myndirnar um fornleifafræðinginn Indiana Jones, geimálfinn E.T. og þrjár fyrstu Harry Potter-myndirnar. Og auðvitað Stjörnustríðsmyndirnar. Þar fyrir utan hefur hann samið tónlist fyrir setningu fernra Ólympíuleika og stef fyrir ýmsar merkar og mikilvægar uppákomur aðrar. 

John Williams hefur unnið til fimm Óskarsverðlauna og verið tilnefndur til þeirra 47 sinnum og er þar með sá einstaklingur sem hefur verið tilnefndur næstoftast – næst á eftir Walt Disney. Hann hefur unnið fern Golden Globe-verðlaun, sjö BAFTA-verðlaun og 21 Grammy-verðlaun og auk þess hefur honum hlotnast margvíslegur heiður sem of langt mál yrði að telja upp. 

Eitt helsta afrek hans á tónlistarsviðinu er þó sennilega það að kynna fjölbreytileika stórra sinfóníuhljómsveita fyrir fólki sem aldrei hefði dottið í hug að hlusta á slíkar hljómsveitir ef ekki hefði verið verið fyrir tónlist Williams við allar þessar þekktu kvikmyndir. 

John Williams sagði eitt sinn í viðtali: „Sem hljóðfæri er sinfóníuhljómsveit ein af mestu uppfinningum mannshugans. Og þar sem hljómsveitin hefur þroskast í yfir 200 ár spannar tjáningarhæfni hennar ótrúlega vítt svið.“ Þetta hljóðfæri hefur hann gert að sínu og hann kann svo sannarlega að nota allar hliðar þess.