EN

John Williams: Harry Potter og viskusteinninn

John Williams (f. 1932) er tvímælalaust einn áhrifamesti tónlistarmaður samtímans. Vart finnst það mannsbarn í hinum vestræna heimi sem ekki hefur hrifist af tónlist hans fyrir kvikmyndir. Ferill hans spannar sjö áratugi og fleiri metsölukvikmyndir en nokkurt annað tónskáld getur státað af. Hann hefur samið tónlist fyrir ferna Ólympíuleika, unnið til fimm Óskarsverðlauna og hreppt Grammy-verðlaun í 25 skipti. Hann hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna samtals 52 sinnum og þar skákar honum enginn nema Walt Disney.

Williams fæddist í New York, sonur djasstrommara sem lék með kvintetti Raymonds Scott, en fluttist ungur til Los Angeles með foreldrum sínum. Hann gekk í Kaliforníu-háskóla og lærði tónsmíðar hjá Mario Castelnuovo-Tedesco sem var merkt tónskáld frá Ítalíu, af gyðingaættum og flýði fasismann árið 1939. Þegar Williams hafði lokið háskólanámi tók við þriggja ára þjónusta í flugher Bandaríkjanna en að henni lokinni hélt hann aftur á æskuslóðir í New York, nú til að nema píanóleik við Juilliard-tónlistarháskólann hjá Rosinu Lhévinne. Hún var annar innflytjandi frá gamla heiminum og hálfgerð goðsögn í lifanda lífi, upphaflega frá Úkraínu og átti merkan feril í Berlín á fyrstu áratugum síðustu aldar, en fluttist vestur um haf að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni. Við Juilliard kenndi hún fjölda merkra tónlistarmanna; í nemendahópnum voru m.a. píanistinn Van Cliburn og hljómsveitarstjórinn James Levine. Því má ljóst vera að Williams er hámenntaður klassískur tónlistarmaður þótt ferillinn hafi snemma tekið óvænta beygju.

 

Kvikmyndin Harry Potter og viskusteinninn kom út árið 2001 og var aðsóknarmesta mynd ársins. Með myndinni öðluðust leikararnir ungu, Daniel Radcliffe og Emma Watson, heimsfrægð og ævintýraheimur J.K. Rowling varð ljóslifandi á hvíta tjaldinu. Myndin hlaut þrjár tilnefningar til Óskarsverðlauna og í kjölfarið fylgdu sjö framhaldsmyndir á níu árum.Tónlistin eftir John Williams leikur stórt hlutverk í myndunum um Harry Potter. Williams notar leiðsögustef í tónlist sinni, lætur meginpersónur og staði hafa eigin stef sem hafa sterkan blæ, til dæmis erkióvininn Voldemort, heimavistarskólann Hogwarts, vináttustefið, og aðalstefið sem kennt er við ugluna Hedwig.