EN

Jón Ásgeirsson: Flautukonsert

Jón Ásgeirsson er eitt ástsælasta tónskáld Íslands en hann fagnaði níræðisafmæli sínu á liðnu hausti. Jón stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, þar sem aðalkennarar hans voru Árni Kristjánsson, dr. Victor Urbancic og Jón Þórarinsson. Að loknu námi við Tónlistarskólann stundaði hann framhaldsnám við Konunglega skoska tónlistarskólann í Glasgow og Guildhall­tónlistarskólann í London. Auk tónsmíða hefur Jón stundað kennslustörf, lengst af við Kennaraháskóla Íslands en hann var skipaður prófessor í tónlist 1996.

Jón Ásgeirsson sótti í fyrstu verkum sínum, Þjóðvísu, Liljuog Fornum dönsum efnivið til íslenskra þjóðlaga, en einnig liggja eftir hann ótal þjóðlagaútsetningar hans ýmist fyrir hljóðfærahópa eða kóra og hafa kórútsetningar hans öðlast sérstakan sess meðal íslenskra kórbókmennta. Meðal helstu verka Jóns eru óperurnar Þrymskviða og Galdra-Loftur, ballettinn Blindisleikur, Sjöstrengjaljóð fyrir strengjasveit og konsertar fyrir selló, horn og klarínettu. Meðal sönglaga Jóns má nefna lagaflokkinn Svartálfadans og lög Jóns úr leikgerð sögu Halldórs Laxness Húsi skáldsins ­ Maístjörnuna, Vorvísu og Hjá lygnri móðu. Óperan Galdra-Loftur, sem byggð er á samnefndu leikriti Jóhanns Sigurjónssonar var frumflutt á Listahátíð í Reykjavík 1996 og kom nýverið út á geisladiski.

Tilurð flautukonsertsins má rekja til vináttu Arnþórs sonar Jóns sem er sellóleikari og Freys Sigurjónssonar flautuleikara en þeir eru æskuvinir og fóru saman til framhaldsnáms til Manchester. Freyr fluttist síðan til Bilbao á Spáni þar sem hann hefur undanfarna áratugi starfað sem 1. flautuleikari í sinfóníuhljómsveit borgarinnar. Í einni Íslandsheimsókn sinni bað hann Jón að skrifa fyrir sig flautukonsert og lauk Jón því verki árið 2000.

Eins og Jóns er von á vísa prýða margar fagrar laglínur flautu­ konsertinn og er fyrsti kaflinn byggður á stefi sem Jón notaði í kvikmynd Baltasar Kormáks, Hafið.