EN

Jórunn Viðar: Eldur

Tónskáldið og píanóleikarinn Jórunn Viðar (1918–2017) var eitt merkasta tónskáld þjóðarinnar á 20. öld og frumkvöðull á sviði íslenskrar kvikmynda- og danstónlistar. Jórunn nam fyrst tónlist hjá móður sinni Katrínu Viðar, þá Páli Ísólfssyni og Árna Kristjánssyni áður en hún hélt utan í nám til Berlínar og New York. Heimkomin starfaði Jórunn sem píanóleikari, kennari og tónskáld, hélt fjölmarga tónleika og kom ótal sinnum fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eftir Jórunni liggja hljómsveitarverk, einleiksverk, kammerverk, fjölmörg lög fyrir einsöngvara og kóra sem og útsetningar á þjóðlögum og þulum.

Hið blæbrigðaríka hljómsveitarverk Eldur er samið við samnefndan ballett Sigríðar Ármann sem var frumsýndur í nývígðu Þjóðleikhúsi í maí 1950 á Listamannaþingi. Þetta var merkisviðburður, í fyrsta sinn var sýndur ballett við frumsamda íslenska tónlist auk þess sem hér var á ferð fyrsta hljómsveitarverk íslenskrar konu. Fram komu dansarar úr Félagi íslenskra listdansara og úr nýstofnaðri Sinfóníuhljómsveit Íslands en stjórnandi var Róbert Abraham Ottósson.

Eldur var hluti af viðamikilli tónlistar- og dansdagskrá sem fram fór þetta maíkvöld í Þjóðleikhúsinu en ljóst má vera af viðtökum að frumflutningur þessa nýja balletts var atriðið sem mesta eftirtekt vakti líkt og Bjarni Guðmundsson skrifaði um í dómi í Morgunblaðinu í maí 1950.

„Loks var sá þátturinn, sem mesta eftirvæntingu hafði vakið, „Eldur", frumsamið ballettverk eftir Jórunni Viðar, dansað af fyrri hópnum undir stjórn og forystu Sigríðar Ármanns. Ballettmúsík frú Jórunnar er ákaflega skemmtileg og áheyrileg, hið vandaðasta verk, sem lýsir miklum hæfileikum og kunnáttu. Var öll frammistaða dansmeistara, dansmeyjum, tónskáldi og hljómstjóra til mikils sóma, enda hlutu öll verðskuldaðan fögnuð leikhúsgesta í þáttarlok... Á undan þessum þætti var lesið órímað ljóð eftir Tómas Guðmundsson með tilvitnunum í Einar Benediktsson, að því er virtist til þess að „útskýra" ballettverkið. Jeg held að það hafi ekki ruglað fólk að neinu ráði."