EN

Joseph Haydn: Sellókonsert nr. 1 í C-dúr

Joseph Haydn (1732-1809) er án nokkurs vafa eitt afkastamesta tónskáld tónlistarsögunnar, að minnsta kosti ef litið er til fjölda tónverka. Haydn fékk stöðu sem aðstoðarkapellumeistari hjá Esterházy fjölskyldunni árið 1761, þá tæplega þrítugur að aldri. Hlutverk hans var að semja og sjá um flutning á veraldlegri tónlist fyrir Esterházy greifa og hirð hans, á meðan kapellumeistarinn sá um trúarlega tónlist. Staða Haydns við hirð Esterházy voru sannkallaðar kjöraðstæður fyrir hið unga tónskáld til þess að semja og þróa verk sín. Hann hafði hljómsveit til taks til þess að leika verk sín og fínpússa stíl sinn, sem hafði mikil áhrif á önnur tónskáld klassíska tímabilsins. 

Af öllum þeim fjölda verka sem Haydn samdi er fremur lítill hluti þeirra í konsertformi. Allt fram til ársins 1961 var talið að Haydn hefði aðeins samið einn sellókonsert, konsertinn í D-dúr. Þó vissu fræðimenn um tilvist konserts í C-dúr sem talið var að hefði glatast og var verkið skráð sem slíkt í verkaskrá tónskáldsins. Árið 1961 fann fræðimaðurinn Oldrich Pulkert sellókonsertinn í C-dúr á þjóðskjalasafninu í Prag, nærri tveimur öldum eftir að verkið var samið. Sellókonsertinn í C-dúr er án vafa eitt allra besta verk Haydns í konsertformi og öðlaðist um leið sess sem eitt af lykilverkum fyrir selló frá klassíska tímabilinu.

Helgi Jónsson