EN

Joseph Haydn: Trompetkonsert í Es-dúr, 3. kafli Allegro (rondo)

Joseph Haydn (1732-1809) samdi trompetkonsert sinn undir lok ævinnar, þegar hann stóð á hátindi hæfni sinnar og frægðar, og var álitinn eitt fremsta tónskáld veraldar. Tónleikaferðir hans til Lundúna og sinfóníurnar sem hann samdi fyrir þær höfðu aukið mjög veg tónskáldsins, og nú var hann snúinn heim, sestur að í Vínarborg og vann að mestu að kirkjulegri tónlist þangað til ævidagar hans voru á enda. En þótt Haydn væri roskinn hafði hann ekki misst áhugann á nýjum uppfinningum í heimi tónlistarinnar. Hann tók því hliðarspor frá kirkjutónlistinni þegar hann heyrði í trompetvirtúósinum Anton Weidinger, sem starfaði við hirð Vínarkeisara, leika á glænýja gerð trompets sem hann hafði sjálfur fundið upp. Hljóðfærði var búið tökkum sem gerði því kleift að leika alla tóna hins krómatíska tónstiga. Þessir takkar juku mjög á möguleika hljóðfærisins, sem áður var bundið af hinni náttúrulegu yfirtónaröð rétt eins eins og önnur málmblásturshljóðfæri þess tíma. Konsertinn var saminn með Weidinger og takkatrompetið hans í huga, og gerir þannig kröfur til einleikarans sem ekki höfðu áður verið mögulegar, ekki síst í þriðja kaflanum, sem er glettnislegt og grípandi rondó.