EN

Carl Maria von Weber: Klarínettukonsert

Þýska tónskáldið og óperustjórinn Carl Maria von Weber (1786–1826) kom úr sviðslistafjölskyldu en faðir hans var leikhússtjóri og móðir hans söngkona. Hann var uppi á umbreytingartímabili í tónlistinni, þegar klassíska stefnan var að líða undir lok og rómantíska stefnan að taka við. Hann var sérstaklega mikilvægur fyrir þýska óperu og var um tíma óperustjóri í Dresden og Prag. Hans þekktasta verk er óperan byltingarkennda Der Freischütz sem naut mikilla vinsælda strax við frumflutning. Hún er tímamótaverk í óperusögunni og ber mörg einkenni rómantísku stefnunnar bæði í tónlist og sviðsetningu.

Fyrsti klarínettukonsert Webers var sérstaklega saminn fyrir Heinrich Bärmann sem var leiðandi klarínettuleikari við hirðhljómsveitina í München. Weber kynntist honum árið 1811 þegar hann var í München í von um að öðlast virðingu og frægð sem tónskáld og hljóðfæraleikari. Kóngurinn í München var viðstaddur tónleika þar sem Bärmann frumflutti Concertino fyrir klarínettu og hljómsveit eftir Weber og varð svo hrifinn að hann pantaði tvo klarínettukonserta fyrir Bärmann. Auk þeirra samdi Weber tvö önnur verk sem voru sérstaklega tileinkuð honum.

Konsertinn er í hefðbundnu þriggja þátta formi, með hröðum fyrsta kafla, hægum og syngjandi öðrum kafla og lýkur svo á líflegu rondói í þriðja kafla. Blæbrigðin í verkinu bera þess merki að Weber var leikinn við óperuskrif þar sem tónlistin er mjög leikræn. Fyrsti kaflinn einkennist af miklum andstæðum, gleði og angist, lífi og dauða. Annar kaflinn er rólegt adagio, sem er hefðbundið í formi fram að millikafla. Þar leika einleikarinn og þrjú horn saman einfalda laglínu, sem minnir á þýska sveitasælu. Þriðji kaflinn er líflegt rondó þar sem einleikari og hljómsveit fá að gleyma dramatíkinni úr fyrsta kaflanum og spilagleðin tekur við.

Birkir Örn Hafsteinsson