Lili Boulanger: D'un soir triste
Lili Boulanger (1893–1918) kom úr mikilli tónlistarfjölskyldu, en eldri systir hennar, Nadia Boulanger, var þekkt tónskáld og virtur kennari. Einnig voru afi hennar og faðir verðlaunaðir tónlistarmenn. Nadia og Lili tóku m.a. báðar þátt í Prix de Rome: Nadia hreppti annað sætið árið 1908, en Lili fyrsta sætið árið 1913, fyrir kantötuna Faust et Hélène – og varð þar með fyrsta konan til að vinna keppnina.
Líf Lili var mótað af veikindum frá unga aldri eftir að hafa fengið slæma lungnabólgu sem barn. Þrátt fyrir ótrúlega tónlistarhæfileika takmarkaði heilsuleysið tækifæri hennar til framhaldsnáms. Hún sat tíma í Parísarkonservatoríinu ásamt Nadiu frá fjögurra ára aldri og síðar meir lærði hún hjá Gabriel Fauré. Hún samdi fyrst og fremst söngtónlist og má finna bæði óperur og útsetningar á sálmum á meðal verka hennar. Hún var undir áhrifum frá Debussy en líkt og Debussy heillaðist Lili af jaðri listasviðsins og verk hennar eru mjög í takt við hugmyndir bæði impressjónisma og symbólisma. Verk hennar einkennast af dulúð og fjarlægð.
D'un soir triste (í. Af sorglegu kvöldi) var samið á síðustu mánuðum lífs Lili. Verkið endurspeglar bæði vitund um að hún ætti skammt eftir ólifað og sterka kaþólska trú hennar. Þetta er áhrifamikið verk sem hefst á rólegum inngangi en þyngist svo og verður að lokum yfirþyrmandi. Lili vefur þykkan hljómrænan vef þar sem samstíga fimmundir og dökkir litir eru áberandi.