EN

Lisa Streich: Segel

Lisa Streich er fædd árið 1985 í Svíþjóð og hefur á undanförnum árum skipað sér í hóp eftirsóttustu tónskálda Norðurlandanna af yngri kynslóð. Hún lærði fiðluleik, píanó- og orgelleik og hafði ekki áform um að leggja tónsmíðar fyrir sig fyrr en nítján ára gömul á örlagaríkum tónleikum í Berlín. Þá heyrði hún í fyrsta sinn flutt opinberlega verk eftir konu, enska tónskáldið Rebeccu Saunders en í kjölfarið var teningunum kastað og heimur sem hafði verið henni lokaður opnaðist. Lisa Streich stundaði nám í tónsmíðum í Berlín, Stokkhólmi, Salzburg, París og Köln og hefur á undanförnum árum hlotið fjölda viðurkenninga og verðlaun fyrir tónlist sína. Má þar nefna styrk kenndan við Bernd Alois Zimmermann, Ernst von Siemens-tónskáldaverðlaunin og Heidelberg-verðlaunin fyrir konur í listum.

Á verkalista Lisu Streich eru tónsmíðar fyrir alls kyns hljóðfærasamsetningar og hljóðgjafa, kóra, barokksveitir, slagverkshópa, einleikshljóðfæri og sinfóníuhljómsveitir, hversdagslegt smádót og umbreytt hljóðfæri af öllu tagi. Hún er heilluð af leiknum í tónlistinni, snýr á væntingar áheyrenda með því að bjaga hljóðheim, notast við óhefðbundnar tónstillingar og þenur út tónsvið með heimasmíðuðum tækjum og tólum. Á meðal hljómsveita og tónlistarhópa sem hafa pantað verk af henni má nefna Berlínarfílharmóníuna, Ensemble Intercontemporain, Fílharmóníusveitina í Köln, Collegium Novum í Zürich, allar helstu sinfóníuhljómsveitir í Svíþjóð og norður-þýsku útvarpshljómsveitina í Elbfilharmonie.

Segel – eða Segl – grípur hlustandann heljartaki strax frá upphafi. Fimm slagverksleikarar dreifa sér um sviðið samkvæmt ákveðnum fyrirmælum; framkalla svipuhögg sem er svarað með hálfkæfðum míkrótónum hljóðfæraleikara og söngli hljóðfæraleikaranna. Verkið er brotakennt og ólgar af undirliggjandi spennu sem brýst af og til upp á yfirborðið en Segel var frumflutt af hljómsveitarakademíu tónlistarhátíðarinnar í Luzern í Sviss sumarið 2017 og hefur í kjölfarið verið flutt af fjölda hljómsveita.

Hreyfingar hljóðs og hljóðfæraleikara eru tónskáldinu hugleiknar í verkinu Segel, slagverksleikarar mynda hálfhring utan um hljómsveitina og hljóðið berst frá einum væng til annars líkt og vindur sem knýr seglskipið áfram, hljómsveitin umbreytist í risastórt segl sem þenst út og dregst saman eftir bendingu hljómsveitarstjórans. Verkið er leikið í einni samfellu en greinist innan hennar í smærri einingar, hver og ein ber heiti eða kveikju sem tengja má trú og náttúru, kaflaheiti á borð við kross, þrenningu og vængjaðar verur.

Tónsmíðaaðferðin að baki verkinu er áhugaverð; Lisa Streich fór í gegnum upptökur með trúarlegri söngtónlist svo sem gregorssöng, tónlist Hildegard von Bingen og sálmum rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar. Þessar söngupptökur braut hún niður í frumeindir sínar og greindi með aðferðum spektraltónlistar svo úr varð hljómræn grind verksins þar sem míkrótónar gegna lykilhlutverki. Upptökurnar eru fyrst og fremst með áhugamannakórum, ekki menntuðu söngfólki, enda tónskáldið heillað af hinu brothætta og ófullkomna, því bjagaða og sérstæða sem snýr rækilega upp á hugmyndina um hvernig hinn hreini og veltempraði tónn eigi að hljóma.

Tónlistin á Íslandi
Þetta er í fyrsta sinn sem tónlist Lisu Streich hljómar á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands.