EN

Ludwig van Beethoven: Reiðin yfir týnda eyrinum

Ludwig van Beethoven (1770–1827) skildi eftir sig allnokkurn fjölda óútgefinna verka við andlátið. Vafalaust voru ýmsar ástæður fyrir því að þau komust ekki á prent; áhugaleysi nótnaforleggjara, efasemdir tónskáldsins sjálfs, eða hreinlega að önnur verkefni fönguðu huga hans og eldri smálög gleymdust um hríð.

Smáverkið „Reiðin yfir týnda eyrinum“ er eitt þessara verka. Það er samið fyrir píanó, líklega á árunum um 1795–98. Aðeins er til eitt eiginhandarrit Beethovens af verkinu, sem Anton Diabelli gaf út á prenti árið 1828, fáeinum mánuðum eftir lát tónskáldsins. Diabelli bætti við efni til að auka umfang verksins og gaf því heitið „Rondo a capriccio“ – duttlungafullt rondó. Líklega er annað heiti verksins, Die Wut über den verlornen Groschen (Reiðin yfir týnda eyrinum) komin frá aðstoðarmanni Beethovens, Anton Schindler, en erfitt er að segja hvort hann byggði þar á upplýsingum frá Beethoven sjálfum. Þetta er fjörugt píanóstykki með miklum tilþrifum, en hljómsveitarútsetninguna gerði tékkneska tónskáldið Erwin Schulhoff árið 1940. Hann átti þá ekki nema fáein ár eftir ólifuð. Hann var gyðingaættar og fyrir það var hann handtekinn af nasistum og færður í fangabúðir í Wülzburg í Bæjaralandi, og þar lést hann árið 1942, 48 ára að aldri.