EN

Marcos Balter: Orun

Brasilíska tónskáldið Marcos Balter (f. 1974) hefur hlotið mikið lof fyrir verk sín, sem hefur verið lýst sem „dásamlegum“ (The Chicago Tribune), hnyttnum og súrrealískum (The New York Times) og myrkum og ljóðrænum (The Washington Post). Tónlistin er tilfinningaþrungin og flókin, knúin áfram af tilraunum við að umbreyta hljóðblæ.

Balter hóf tónlistarnám sitt aðeins fimm ára gamall við Conservatório Musical Heitor Villa-Lobos í Ríó de Janeiro. Tuttugu og eins árs gamall flutti hann til Bandaríkjanna til að halda áfram námi og lauk doktorsprófi frá Northwestern University. Balter hefur hlotið fjölda verðlauna, þar á meðal American Academy of Arts and Letters Music Award og Guggenheim Fellowship. Verk hans hafa verið flutt af virtum hljómsveitum eins og New York Philharmonic og Los Angeles Philharmonic. Hann er nú Fritz Reiner prófessor í tónsmíðum við Columbia University, en hefur einnig kennt við University of California í San Diego og Columbia College Chicago.

Tónverkið Orun samdi Balter árið 2022, en það sækir innblástur í trú og hefðir Yoruba-fólksins í Vestur Afríku. Kjarni trúar þeirra snýr að fyrrnefndu Orun, sem er ósýnileg vídd þar sem andar hinna látnu hverfa til, svipað og í himnaríki hinna kristnu. Í trú Yoruba-fólksins má í Orun finna uppsprettu ættarstyrks hinna látnu sem flæðir yfir í heim þeirra lifandi og valdeflir þá .

Tónskáldið leggur áherslu á sterkt andrúmsloft fremur en þematíska uppbyggingu í verkinu. Innan þessa fljótandi ramma sýnir Balter leikni sína í hljóðfæranotkun. Strengir og harpa hefja og ljúka verkinu, en inn á milli eru kröftugir kaflar með málmblásturshljóðfærum sem skapa hápunkt í miðju verksins.

Sem samkynhneigður listamaður af afrískum uppruna í Brasilíu leggur Balter áherslu á að víkka menningarlega umræðu um tónlist út frá nýlendufræðilegu sjónarhorni. Með Orun endurspeglar Balters áhuga sinn á að brúa ólík sjónarhorn og skapa listrænt flæði í fjölmenningarsamfélagi.