EN

María Huld Markan Sigfúsdóttir: Oceans

María Huld Markan Sigfúsdóttir (f. 1980) fiðluleikari og tónskáld hefur farið um víðan völl tónlistarinnar. Hún útskrifaðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2000 og frá Listaháskóla Íslands með BA-gráðu í tónsmíðum árið 2007. Auk þess að sinna tónsmíðum hefur hún verið meðlimur í hljómsveitinni amiinu til margra ára og með henni ferðast heimshorna á milli og flutt tónlist í ýmsum myndum. María Huld hefur á undanförnum árum unnið með hinum ýmsu listamönnum og hljómsveitum, meðal annars Sinfóníuhljómsveit Íslands, Nordic Affect, London Sinfonietta, Francesco Scavetta, Yann Tiersen, Guy Maddin, Ben Frost, Aono Jikken Ensemble, Sigur Rós, Ragnari Kjartanssyni og Sólstöfum. Árið 2012 hlaut María viðurkenningu frá alþjóðlega tónskáldaþinginu (International Rostrum of Composers) fyrir verk sitt, Sleeping Pendulum. Upptökur af verkum hennar hafa hlotið mikið lof gagnrýnenda, og má þar sérstaklega nefna plötuna Clockworking sem kom út á árinu 2015 á vegum Sono Luminus-útgáfunnar og hefur að geyma tvö tónverk Maríu Huldar í flutningi tónlistarhópsins Nordic Affect. Einnig hefur María samið tónlist við kvikmyndir og dansverk og hafa tónsmíðar hennar verið fluttar á Íslandi, Bandaríkjunum og Evrópu.

María Huld segir um verk sitt: „Verkið Oceans var samið á haustmánuðum á eyju í miðju Norður-Atlantshafi, nánar tiltekið á suðvesturhorni Íslands. Nafn verksins tengist tónefni þess ekki á beinan hátt en nafnið kom til snemma á ferlinu. Við nánari athugun má samt segja að nafnið sé viðeigandi; þegar það var samið var mér mikið hugsað til úthafanna, ástands þeirra og alls plastruslsins sem sem velkist þar um og myndar sumstaðar eyjur mun stærri en þá sem ég bý á. Einnig fannst mér á stundum að verkið hefði tekið á sig sjálfstæða tilverumynd og ég hefði ekkert um framvindu þess að segja – mér fannst ég velkjast um á opnu hafi og ekki sjá til lands. Hugmyndir, stef og mótív rak til mín með haustlægðunum, þær bönkuðu uppá og kröfðust áheyrnar.“