EN

Maurice Ravel: Píanókonsert fyrir vinstri hönd í D-dúr

Árið 1929 pantaði píanóleikarinn Paul Wittgenstein, sem hafði misst hægri handlegg sinn í fyrri heimsstyrjöldinni, konsert fyrir vinstri höndina eina hjá Maurice Ravel (1875–1937). Þrátt fyrir að Ravel væri þegar frægur fyrir glitrandi einleiksverk sín fyrir píanó hafði hann aldrei áður samið píanókonsert. Þessi pöntun varð til þess að hann samdi ekki aðeins einn heldur tvo konserta á árunum 1930–1931; hinn dimma, stórbrotna Konsert fyrir vinstri hönd í D-dúr og hinn léttari Konsert í G-dúr.

Ravel lagði ríka áherslu á að verkið virkaði ekki sem einhverskonar uppátæki og jafnframt sagði hann: „Það er nauðsynlegt,“ skrifaði hann, „að það hljómi aldrei þynnra en verk sem er samið fyrir báðar hendur.“ Útkoman er einþátta konsert sem sameinar ótrúlegt afl og frumleika, bæði harmrænn og hetjulegur í senn. Konsertinn er mjög krefjandi tæknilega fyrir einleikarann og má finna bæði stór stökk og þykka hljóma sem vinstri höndin ein þarf að leysa. Hljóðheimurinn byggir á djúpu tónsviði hljómsveitarinnar, kontrafagotti, bassaklarínett, ensku horni og lágstrengjum sem gefur verkinu þungan og dapran blæ.

Verkið hefst næstum ógreinanlega, með hægum lágtóna inngangi, leiknum af dýpstu hljóðfærunum, sem vex smám saman þar til píanóið vekur upp raust sína með tilkomumiklum inngangi. Fyrsta kadensa píanósins kannar dimmustu svið hljóðfærisins og setur fram stef full af dramatík og söknuði. Skyndileg umbreyting leiðir svo yfir í scherzo-líkt Allegro í 6/8 takti, þar sem Ravel blandar saman djarfri hrynjandi og hljómum úr amerískum jazzi og blús, krydduðum með íberískum blæ. Í lokakaflanum kallar píanóleikarinn fram og vefur saman helstu stefjum verksins, áður en því lýkur með glæsilegum kóda.