EN

Missy Mazzoli: Sinfonia (for Orbiting Spheres)

Missy Mazzoli gegnir nú stöðu staðartónskálds hjá Sinfóníuhljómsveitinni í Chicago og New York Times hafði nýlega um hana þau orð að hún væri „eitt hugmyndaríkasta tónskáld New York­borgar“ um þessar mundir. Hún hefur hlotið Grammy­verðlaun fyrir verk sín og hefur verið tilnefnd við önnur tækifæri, meðal annars á síðasta ári. Hún var fyrst kvenna ásamt tónskáldinu Jeanine Tesori til að fá pöntun á óperu frá Metropolitan í New York, en áður hafði hún samið nokkrar óperur sem hafa hlotið fádæma góðar móttökur.

Sinfónía (fyrir hnetti á sporbaug) er í laginu eins og sólkerfið. Í því er að finna samansafn eininga sem snúast hver um aðra innan stærri sporbaugs. Orðið sinfónía vísaði í verk fyrir kammersveitir á barokktímanum, en Mazzoli hafði einnig í huga eldri merkingu orðsins, sem er eins konar lírukassi, miðaldahljóðfæri með strengjum sem gefur frá sér samfelldan hásan tón á meðan hægt var að leika laglínur á áfast hljómborð. Í verkinu gefur að heyra áhrifin frá þessu hljóðfæri, þar sem laglínur snúast hver um aðra á ævintýralegum hraða.

Mazzoli samdi þetta verk árið 2014 fyrir Fílharmóníusveitina í Los Angeles, og endurskoðaði það árið 2016. Síðan þá hefur það verið flutt víða um heim við frábærar undirtektir.