EN

Missy Mazzoli: Sinfonia (for Orbiting Spheres)

Bandaríska tónskáldið Missy Mazzoli (f. 1980) er fædd í Pennsylvaniu og stundaði nám meðal annars við Yale-háskólann og við Tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og verið tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir tónverk ársins, auk þess sem hún var um tveggja ára skeið staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitarinnar í Chicago og hefur kennt við Yale og New York University. Meðal stærri verka hennar er Breaking the Waves frá árinu 2016, sem byggð er á samnefndri kvikmynd leikstjórans Lars von Trier.

Mazzoli samdi Sinfóníu (fyrir hnetti á sporbaug) árið 2013 en gerði smávægilegar endurbætur á verkinu árið 2021. Mazzoli segir sjálf að þegar hún samdi Sinfóníu (fyrir hnetti á sporbaug) hafi hún viljað semja verk sem væri í laginu eins og sólkerfið, samsett af einingum sem snerust hver um aðra innan stærri sporbaugs. Sömuleiðis hafi hún viljað að niðurlag verksins væri eins og upphaf þess en þó ekki, að efniviðurinn hefði orðið fyrir „stórkostlegri umbreytingu“ á leiðinni en að kjarni þess væri þó hinn sami. Orðið sinfónía á sér margs konar merkingu en en Mazzoli hafði í huga forna merkingu þess, miðaldahljóðfæri sem kallað var symfónn á íslensku en hurdy-gurdy á ensku. Það er eins konar lírukassi sem gefur frá sér samfelldan hásan tón á meðan hægt er að leika laglínur á áfast hljómborð. Í verki Mazzoli leikur hún sér meðal annars að því að breyta heilli sinfóníuhljómsveit í risastóran lírukassa og til þess þurfti að bæta við nokkrum hljóðfærum sem yfirleitt tilheyra ekki hefðbundinni áhöfn sinfóníuhljómsveitar.