EN

Pablo de Sarasate: Sígaunaljóð

Spænski fiðluvirtuósinn, tónskáldið og hljómsveitarstjórinn Pablo de Sarasate (1844–1908) hóf að nema fiðluleik hjá föður sínum fimm ára gamall en tónlistarhæfileikarnir voru slíkir að honum var snemma komið í læri hjá virtum kennurum, fyrst í Madríd en síðar í París. Leiðin var þó að mörgu leyti grýtt; móðir hans lést í lestinni á leiðinni til Parísar og sjálfur glímdi Sarasate við kóleru við komuna til borgarinnar. Eftir að hafa náð heilsu og numið í Frakklandi lagði Sarasate heiminn hins vegar að fótum sér sem fiðlusnillingur og kom fram víða, raunar heimshorna á milli. 

Sarasate er helst minnst nú á dögum fyrir tónsmíðar sínar, einkum Sígaunaljóð (1878) og Carmen-fantasíuna (1882). Sígaunaljóð, sem er í fjórum samhangandi þáttum, var frumflutt í Leipzig og hefur allar götur síðan notið mikilla vinsælda, ekki hvað síst fyrir grípandi stef og kröfur sem verkið gerir til einleikarans. Það er ekki hvað síst stefið í þriðja hluta verksins sem íslenskir áhorfendur þekkja (Til eru fræ) í rómuðum flutningi Hauks Morthens. Sarasate – eins og margir samtíðarmenn hans – taldi stefið komið frá Rómafólki en hér skrikaði honum fótur, enda er um að ræða ungverskt lag eftir Elemér Szentirmay (1836–1908). Þá er stefið í fjórða hlutanum sótt í Ungverska rapsódíu nr. 13 eftir Franz Liszt (csárdás). En hver svo sem uppruni stefjanna kann að reynast er engum blöðum um það að fletta að verkið er glæsilegt og heillar alla sem á það hlýða.

Sígaunaljóð hljómaði fyrst á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 1977 sem fram fóru í tónleikaferð í Færeyjum. Einleikari var Guðný Guðmundsdóttir og stjórnandi Páll P. Pálsson. Verkið var svo flutt á Íslandi síðar sama ár, þá á tónleikum í Garðabæ. Verkið hljómaði 2008 á Vínartónleikum undir stjórn Ernst Kovavic og á Jólatónleikum 2010 undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar en þá var Hlér Kristjánsson í hlutverki einleikarans. Síðast hljómaði Sígaunaljóðið í meðförum Sigrúnar Eðvaldsdóttur 2011 á opnunarhátíð í Hörpu undir stjórn Petri Sakari.