EN

Paul Creston: Fantasy for trombone and orchestra

Texti eftir Jón Arnar Einarsson

Paul Creston (1906-1985) fæddist inn í ítalska innflytjendafjölskyldu í New York. Honum var gefið nafnið Guttoveggio Giuseppe. Foreldrar hans voru frá Sikiley, faðirinn málari og á heimilinu var sungið og spilað á gítar. Sex ára gamal dvaldi hann með móður sinni á Ítalíu i sex mánuði. Þar sungu þau og dönsuðu við ítölsk þjóðlög, nokkuð sem átti eftir að móta Creston til framtíðar. Fimmtán ára hætti hann í skóla og fór að vinna til að styðja við efnahag fjölskyldunnar. Hann gafst þó ekki upp á lærdómi heldur las og æfði sig fram eftir kvöldum. Creston sótti tíma á píanó sem barn en var að öðru leyti sjálflærður. Þegar hann gifti sig breytti hann nafni sínu í Paul Creston. 

Fantasían ber vitni um trú hans á einfaldleika tónlistar; dansi og söng. Hann upplifði sig ekki að fullu sem Bandaríkjamann heldur að hluta sem Ítala en tónlistinn er full af tilvitnunum í sikileyska tónlist. Tregafull notkun Dies Irae-motífsins í strengjum (sem á uppruna sinn í sálumessu kaþólskra) í lok annars kafla undirstrikar hvernig hann upplifði sig sem ítalskan kaþólikka í Bandaríkjunum á fyrri hluta 20. aldar. Fagri siciliano-rytminn er hornsteinn í hægu hlutum verksins og gæðir verkið bitur-sætum eiginleikum. 

Í byrjun undirstrikar verkið mekanískan stíl bandarískrar tónlistar um miðja 20.öld en með sterka tilvitnun í djassinn en skiptir svo um ham og dreymir um heimalandið með löngum syngjandi laglínum í ítölskum stíl. Undir lok verksins er eins og Creston sættist við lífið í nýja heiminum. Skarpir rytmar og djass-inspíreraðir hljómar undirstrika stílinn. Ítalska melódían kemur aftur en nú sem blanda af þessum tveimur heimum, þar til nýi heimurinn sigrar með nánast hetjulegum krafti undir lok verksins.