EN

Richard Strauss: Rósarriddarinn, svíta

Richard Strauss (1864–1949) var byltingamaður á sína vísu. Hann tók í arf síðrómantískt tónmál Wagners og samdi við upphaf 20. aldar tvær dramatískar einþáttungsóperur sem vöktu hörð viðbrögð samtímamanna: Salóme (1905) eftir leikriti Oscars Wilde um afdrif Jóhannesar skírara við hirð Heródesar Júdeukonungs, og Elektru (1908) eftir harmleik Sófóklesar. Í kjölfarið stóðu Strauss allar dyr opnar og allt útlit var fyrir að hans biði fast sæti í ungri þrenningu evrópskra módernista sem þá skipuðu sér í fremstu röð í tónlistarlífi álfunnar: Strauss, Stravinskíj og Schönberg.

Ekki fór það þó svo. Að Elektru fullgerðri steig Strauss til baka, hörfaði frá hyldýpisbrún tóntegundaleysis aftur í ljúfa Vínarmúsík 19. aldarinnar. Margir telja Rósarriddarann (1911) eina fullkomnustu gamanóperu sem samin hefur verið, enda nýtur hún enn vinsælda í óperuhúsum um allan heim. Vinsældirnar í þá daga voru líka með ólíkindum. Framleiðendur kepptust við að setja á markað Rosenkavalier-kampavín og Rosenkavalier-vindlinga, og árið 1926 var gerð leikin kvikmynd eftir sögunni. Að ópera skyldi njóta slíkra vinsælda að hennar biði einnig líf sem þögul kvikmynd er afrek sem ekki hefur verið leikið eftir síðan.

Söguþráður óperunnar er í stuttu máli þessi: Í Vínarborg hefur marskálksfrúin Marie Thérèse tekið sér sautján ára gamlan pilt, Octavian greifa, sem elskhuga. Frændi hennar, hinn ruddalegi og klaufski Ochs barón, hefur komist í feitt og hyggst kvænast Sophie von Faninal, ungri stúlku af auðugum ættum. Octavian fær það hlutverk að færa Sophie silfurrós til staðfestingar ráðahagnum, en þá fella þau hugi saman. Að endingu segir ungi greifinn skilið við marskálksfrúna, brúðkaup Ochs og Sophie er blásið af og elskendurnir ungu eiga framtíðina fyrir sér.

Hljómsveitin í Rósarriddaranum er æði stór og hlutverk hennar í tónlistinni er ekki síður mikilvægt en söngvaranna. Árið 1944 var hljómsveitarsvítan sem hér hljómar frumflutt í New York undir stjórn Arturs Rodzinski, og er talið að hann hafi fléttað dansana saman í samráði við höfundinn þótt fáar heimildir hafi varðveist þar að lútandi. Hér heyrast mörg frægustu stefin, ástleitin stef í bland við hressilega dansmúsík. Upphafstónar óperunnar lýsa funheitri nótt elskendanna, Octavians og marskálksfrúarinnar, en því næst heyrist innganga Octavians með rósina handa Sophie í öðrum þætti óperunnar. Dúett Octavians og Sophie (óbó og horn) verður sífellt ástleitnari, þar til Ochs kemur á staðinn með miklum gauragangi. Tregafullur kveðjusöngur marskálksfrúarinnar hljómar hér einnig, sem og líflegur vals Ochs baróns sem myndar glæsilegan hápunkt hljómsveitarsvítunnar.