EN
  • Richard_wagner-original4

Richard Wagner: Forleikur að Tannhäuser

Þeir eru tignarlegir, upphafstónar forleiksins að óperunni Tannhäuser eftir þýska tónskáldið Richard Wagner (1813-1883), en minna líka á hornaflokka veiðimanna á ferð í skóginum. Sömu upphöfnu tónar hljóma svo síðar í óperunni, sungnir af pílagrímum á leið til Rómar. Óperan heitir fullu nafni Tannhäuser og Söngvarastríðið í Wartburg. Þar teflir Wagner saman í tónlist og texta (sem hann samdi sjálfur) tveimur þýskum sögnum frá 13. öld, annarsvegar um riddarann og ástarsöngvarann Tannhäuser sem heillaði konur með söng sínum og hins vegar um söngvarakeppni í Wartburgkastala í Thüringen í Þýskalandi. Ástir þessa heims og annars eru til umfjöllunar og sögusviðið ævintýralegt. Tónlistin flæðir áfram án mikilla skila milli aríu, hljómsveitarparts, tónless og kórkafla, en það var ein af formbyltingum Wagners innan óperunnar.