EN

Ruth Gipps: Knight in Armour

Ruth Gipps (1921–1999) var feykilega afkastamikið tónskáld þótt tónlist hennar hafi um hríð legið í þagnargildi; hún samdi meðal annars fimm sinfóníur og sjö konserta, auk fjölda verka fyrir kóra og kammerhópa. Hún var undrabarn í tónlist og hóf ung nám við Royal College of Music, þar sem hún lærði óbó- og píanóleik, auk þess sem Gordon Jacob og Ralph Vaughan Williams kenndu henni tónsmíðar. Hún var fyrsta breska konan til að hljóta doktorsnafnbót fyrir tónsmíðar, árið 1948. Glæsilegt tónaljóð hennar um brynjuklæddan riddara er frá árinu 1940 og var frumflutt á hinum vinsælu „Last Night of the Proms“ tónleikum tveimur árum síðar. Tónlistin er hetjuleg, mikið ber á lúðraþyt og tónarnir bregða upp svipmyndum af gömlum tíma, jafnvel með nokkrum blæ kvikmyndatónlistar.