EN

Sergej Rakhmanínov: Rapsódía um stef eftir Paganini

Verk fyrir píanó og hljómsveit í 24 stuttum þáttum, op. 43

Segja má að hálfrar aldar tónsmíðaferill Sergeis Rakmaninoffs (1873–1943) hefjist árið 1890, þegar hinn 17 ára nemi við Tónlistarháskólann í Moskvu hóf að semja fyrsta píanókonsert sinn. Í dag eru það einmitt konsertar Rakmaninoffs og einleiksverk fyrir píanó sem halda nafni hans á lofti, en stærstur fjöldi verka hans, m.a. sinfóníur, kirkjutónlist og óperur, heyrast mun sjaldnar. Rakmaninoff lauk við hinn síðasta af fjórum píanókonsertum sínum árið 1926 og var á faraldsfæti við tónleikahald næstu árin; hann leit á sjálfan sig sem tónskáld fyrst og fremst, en neyddist til að halda tónleika til þess að sjá fjölskyldu sinni farborða eftir að þau fluttust til Vesturlanda. Rakmaninoff var framúrskarandi píanisti og risavaxnar krumlur hans eru enn nefndar í Heimsmetabók Guinness sem þær stærstu sem vitað er um í faginu. 

Árið 1933 spurði blaðamaður nokkur Rakmaninoff hvort hann væri alfarið hættur að semja. „Ekki alveg,“ svaraði tónskáldið, „ég sem tónlist þegar ég hvíli mig frá tónleikahaldi á sumrin“. En tónleikarnir tóku sinn toll og afköstin minnkuðu eftir því sem tímar liðu. Árið 1931 samdi Rakmaninoff einleikstilbrigði „um stef eftir Corelli“ – þ.e.a.s. um hið alkunna Fólíu-stef barokkskeiðsins – og þá liðu þrjú ár þar til hann hófst handa við Rapsódíuna um stef eftir Paganini. Frumflutningurinn fór fram í Fíladelfíu undir stjórn Leopolds Stokowskis í nóvember 1934 við mikinn fögnuð. Varla hefur Rakmaninoff grunað að þetta yrði síðasta verk sitt fyrir píanó, en sú varð engu að síður raunin; einu verkin sem hann átti eftir ósamin voru þriðja sinfónían (1935–36) og Sinfónískir dansar fyrir hljómsveit (1940). 

24. kaprísa Nicolòs Paganinis er rúsínan í pylsuenda einhvers mesta fingurbrjótasafns fiðlubókmenntanna: ellefu tilbrigði um sextán takta stef sem er ofureinfalt bæði í hljómaferli og rytma. Kaprísan hefur síðan orðið mörgu tónskáldinu efniviður. Schumann, Liszt og Brahms voru meðal þeirra fyrstu sem sóttu innblástur í þessa átt, en á 20. öldinni lögðu jafn ólík tónskáld og Witold Lutosławski og Andrew Lloyd Webber tóna í belg. 

Rapsódía Rakmaninoffs hefst með snaggaralegum inngangi og stuttri „upphitun“ þar sem einungis heyrist bassagangur stefsins en ekki stefið sjálft. Því næst er Paganini-stefið leikið af fiðlum, sem hlýtur að teljast viðeigandi þar sem þær þekkja upprunalega gerð þess öðrum betur. Í fyrstu fimm tilbrigðunum eykst spennan stig af stigi, og í því sjöunda kynnir Rakmaninoff til leiks alls óskylt stef: Dies irae-sönginn úr sálumessu kaþólskra, sem ætti að vera orðið áheyrendum að góðu kunnugt eftir Dauðadans Liszts fyrir hlé. Hér leikur Rakmaninoff sér að því að gera stemninguna eins drungalega og hugsast getur, en aðeins um stundarsakir. 

Þegar birtir til á nýjan leik taka við léttfættir menúettar og afslappaðri tilbrigði en áður, og ekki líður á löngu þar til kemur að 18. tilbrigðinu með hinu undurfagra stefi sem hefur öðru fremur tryggt verkinu ódauðleika. „Ég samdi þetta tilbrigði fyrir umboðsmanninn minn“ á tónskáldið að hafa sagt, en það breytir ekki því að snilldin er ótvíræð, ekki síst þegar haft er í huga að „nýja“ stefið er hvorki meira né minna en aðalstef Paganinis – reyndar að fyrstu tveimur nótunum undanskildum – snúið á hvolf. Eftir þetta draumkennda hliðarspor dembir einleikarinn sér á ný út í virtúósíska fingurbrjóta. Ef allt gengur að óskum sýna lokataktarnir hvort tveggja í senn, tæknilega yfirburði einleikarans og stórkostlegar tónsmíðagáfur Rakhmaninoffs, sem hristir saman skælbrosandi léttleika, brúnaþunga jarðarfararmúsík og píanistíska flugeldasýningu af fyrstu gráðu.